Græn framtíð

 

Í dag kynntu þær Kolbrún Halldórsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Álfheiður Ingadóttir nýtt og viðamikið rit Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um sjálfbæra þróun - Græn framtíð.

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þetta frábæra rit, en það var sannkallað grasrótarverkefni fjölda félaga í VG um allt land. Ritið er þarft framlag til dýpkunar á allri pólitískri umræðu og heildstæðri stefnumótun um umhverfismál á Íslandi. Ég er himinlifandi að sjá það koma út í dag.

Græn framtíð tekur á fjölmörgum þáttum er varða sjálfbæra þróun, s.s. loftlagsmálum, orkustefnu og orkunýtinu, vatnsauðlindinni, líffræðilegri fjölbreytni, náttúru og landslagi, hafsbotni, jarðvegsvernd, landnýtingu, víðernum, ferðaþjónustu, umhverfismennt, samgöngum, mengun, neyslu, framleiðslu, náttúrusiðfræði og stjórnsýslu umhverfismála.

Í skýrslu Brundtlandnefndarinnar frá árinu 1987 var "sjálfbær þróun" skilgreind á einfaldan hátt:

Sjálfbær er sú þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.

Þessi skilgreining hefur síðan verið útvíkkuð og dýpkuð í alþjóðlegri umhverfis- og heimspekiumræðu og byggir á samspili vistfræðilegra, efnahagslegra og samfélagslegra þátta. Nú er sjálfbær þróun einnig talin ná yfir rétt náttúrunnar og lífríkisins til að þróast á eigin forsendum.

Eins og við lifum í dag erum við hins vegar ekki að lifa á sjálfbæran hátt - við erum raunverulega að draga úr möguleikum komandi kynslóða og lífríkis alls jarðar. Við kunnum okkur ekki hóf og við hugsum bara einn leik fram í tímann. Loftlagsbreytingar af manna völdum eru nærtækt dæmi um slíkt. 

Ef allir jarðarbúar tækju upp neysluvenjur Bandaríkjamanna þyrftum við 3-4 plánetur til að lifa af. En við eigum bara eina jörð og hún er kraftaverk. 

Ef allir jarðarbúar tækju upp neysluvenjur okkar Íslendinga hversu margar plánetur þyrftum við þá?!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær þessi skilgreining á sjálfbærri þróun.
Ég er ykkar megin.

Maja Solla (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 23:06

2 identicon

Þetta er glæsilegt plagg sem ég vona að berist fljótlega til VG í Mosó. Þar telja VG menn að fjölmenn íbúa- og umhverfissamtök séu með samsæri gegn sér! Á bæjarstjórnarfundi í gær kaus fulltrúi VG gegn samvinnu við íbúasamtökin ásamt Sjálfstæðismönnum. Þrátt fyrir þá áherslu sem lögð er á samvinnu við íbúasamtök í þessu glæsilega plaggi. Græna framtíðin virðist því miður í allavega þriggja ára fjarlægð hér í minni sveit.

Bestu kveðjur

Kristín I. Pálsdóttir, áhugakona um umhverfismál

Kristín (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband