Vinnukonur frelsisins

Mig langar til að benda ykkur á góða grein eftir Berglindi Rós Magnúsdóttur. Þið getið lesið hana hér.

Berglind er þar að fjalla um hugmyndir Margrétar Pálu og Sjálfstæðiskvenna (og ýmissa annarra) um að ef aukinn einkarekstur ryður sér til rúms í skólakerfinu okkar þá vænkist hagur kvenna.

Málið er langt frá því að vera svo einfalt - og í mörgum tilvikum þvert á móti.

Ég ber mikla virðingu fyrir Margréti Pálu og því frábæra starfi sem hún hefur unnið. En ég get ekki fallist á að við eigum svo auðveldlega að feta þá leið sem hún leggur til varðandi rekstrarform. Ég bjó sjálf í Bandaríkjunum um nokkurt skeið og mig óar við því að við förum að endurtaka þau hrikalegu mistök sem þar hafa verið gerð. Þar hefur hrópleg misskipting rutt sér til rúms á öllum þeim sviðum þar sem jafnræði ætti að vera í fyrirrúmi. Það er einmitt í þá átt sem við stefnum hraðbyri - að lepja upp allt það versta frá Ameríku en láta það besta í friði. Ég vil ekki sjá það.

Það er brýnt að við byggjum upp gott, fjölbreytt, metnaðarfullt, skapandi og mannbætandi menntakerfi á Íslandi! Það sem hins vegar stendur umræðu hér fyrir þrifum er m.a. þráhyggjan um rekstrarform - það er alltaf einblínt á rekstur. Hvað með innihaldið?

Við eigum að setja okkur markmið og haga lausnunum eftir því - ekki gera slæma lausn (einkavæðingu menntakerfisins) að markmiði í sjálfu sér.

Meir um þetta síðar. Ég er þessa stundina að hafa mig til fyrir lítið ferðalag svo ég kveð að sinni.

Gleðilega páska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Guðfríður Lilja og aðrir vg-ingar.

Ég vil benda á grein á blogsíðu kristilegs stjórnmálaafls sem vert er að skoða og fjallar um þetta efni. www.krist.blog.is og uppeldismál almennt.

Þú talar hér að ofan um innihald menntakerfisins. Það er að sjálfsögðu sjálfra skólanna að móta innihald að stórum hluta. Treystir þú ekki góðum skólum til þessa verks?

Það verður að hleypa fagfólki að mótun þessa kerfis. Margrét Pála hefur mikið til síns máls og hreinræktuð gamaldags hægri-vinstri hugmyndafræði á hér ekki við með klassískum tilvísunum í "misheppnað" amerískt kerfi. Kveðja.

Guðmundur Pálsson, 5.4.2007 kl. 13:07

2 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Ríki og sveitarfélögum er skylt að sjá öllum börnum fyrir menntun og einnig skylt að sjá til að öll börn standi jafnfætis í tækifærum sínum til gæðamenntunar. Með auknum einkarekstri er börnum mismunað. Svo einfalt er það. Sama má segja um heilbrigðiskerfið.

Misræmi og mismunun er nóg milli skóla nú þegar, einkum þegar kemur að stuðningskerfinu. Með tilkomu þjónustumiðstöðvanna í Rvk hefur þetta víst lagast að einhverju leiti, einkum fyrir leikskólana, en enn er langt í land. Fólk á ekki að þurfa að færa börn sín milli skóla vegna misræmis í þjónustu.

Laufey Ólafsdóttir, 5.4.2007 kl. 14:17

3 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Skólakerfi hætta að virka vel um leið og þú hættir með hverfisskóla. Það er stórhættulegt að rekar "elítu ríkramannaskóla" til hliðar við almenningsskólana, enda er vel hægt að sjá hvers konar rúst skólakerfið í Bretlandi er. Þegar þú ert kominn með skóla sem geta "fleytt rjóman ofanaf", þ.e. safnað saman hæfileikaríkustu krökkunum, þá endar þú með skóla sem kallaðir eru "sink schools" í Bretlandi, þ.e. skóla þar sem allir minnst mótiveruðu nemendurnir og þeir sem eiga við aðra erfiðleika að eiga safnast saman. Einn helsti styrkleikur íslenska skólakerfisins er að það er ekki með lagskipta og stéttskipta skóla og það eru stórhættulegar skoðanir sem miða að því að koma slíku kerfi á með blekkingum um "val" (þýðir ávallt að einkaskólar fá að velja "bestu" nemendurna, en "hendir þeim erfiðari í almenningsskóla).

En þegar þú rekur hverfisskóla þar sem barnið þitt verður að sækja ná þá er það lágmarks réttur þíns sem foreldra að þú hafir lýðræðislegt vald yfir skólanum. Slíkt verður ekki gert nema með almenningreknum skólum. Það kemur ekki til greina að ég afsali mér yfirumsjón með hverfisskólanum mínum (í gegnum lýðræðislega kjörna fulltrúa mína) til einkaaðila. Þess vegna eru hugmyndir Margrétar Pálu um að einkaaðilar taki yfir reksturinn á skólakerfinu stórvarasamar. Eitt er að leifa einkarekna tilraunaskóla, eins og skóla Margrétar Pálu sjálfrar og skóla eins og Ísaksskóla, svo lengi sem þeir eru mjög takmarkaðir og notaðir f.o.f. til tilrauna með nýja kennsluhætti. En fólk má alls ekki afsala sér lýðræðislegri stjórn sinni á skólunum til einkaaðila, til þess er menntun barna okkar einfaldlega of mikilvæg.

Guðmundur Auðunsson, 5.4.2007 kl. 14:35

4 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Rekstrarhagkvæmni getur gengið of langt og eins og Lilja benti á er það innihaldið sem skiptir máli. Fjársvelti til stofnana er til langs tíma litið heldur engin hagkvæmni, svo jú, þetta er umræðuefnið. Fjársvelti einkennir starfsemi margra skóla eins og staðan er í dag og að mínu mati er eina leiðin sú að viss þjónusta sé færð til ríkis og sveitarfélags (sérstaklega í Reykjavík). Guðmundur kemur með góðan punkt um Bretland. Ríkisreknir skólar eru þar mjög misjafnir.

Laufey Ólafsdóttir, 5.4.2007 kl. 15:17

5 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Ég hef margoft velt því fyrir mér hvort einhverjir haldi því fram að það sé lögmál að einkastofnanir séu betur reknar en ríkisstofnanir. Ég er sannfærð um að það er vel hægt að reka ríkisstofnanir á jafn hagkvæman hátt og einkastofnanir, því allt sem þarf til þess er vilji og hvati til að gera vel. Mín skoðun er sú að hinu opinbera beri að sjá okkur fyrir grunnþörfum okkar, s.s. menntun, heilbrigðisþjónustu, löggæslu, vatni, o.s.frv. Um leið og einkageiranum er blandað í þetta hækkar verðið um leið og þjónustan versnar. Það hefur sýnt sig hér t.d. með sölu Símans.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 5.4.2007 kl. 18:34

6 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ég sé ekki betur en Margrét Pála hafi einfaldlega tekið að sér að berjast fyrir kapítalisma af ný-frjálhyggjugerðinni og sláist þar í hóp Hannesar Hólmsteins og fleiri álíka. Ég verð að segja fyrir mig , að ég á efar erfitt með að bera virðingu fyrir hugsjónum fólks, sem lætur sig hafa að standa í að grafa undan jafnrétti og velferðarkerfi fólksins í landinu.

Eitt af því sem ég tók eftir hjá Margréti Pálu var að hún minntist ekki einu orði á hvort hennar ,,vinnukonur" séu betur launaðar eða nytu almennt betri stafskjara en ,,vinnukonur" sem tekið hafa að sér að starfa í þágu hins opinbera. Meðan hún upplýsir okkur ekki um þetta, lít ég á frelsunarboðskap hennar eins og hvert annað gaspur sjálfumglaðs kapítalista.

Mér hefur skilist að Margrét Pála sé höfundur að afbrigði í skólastarfi sem kallað er ,,Hjallastefnan" og er samkvæmt höfundi hennar algjör snilld, sem ber höfuð og herðar yfir aðrar stefnur í skólastarfi, a.m.k. hérlendis. Hinsvegar hef ég aldrei heyrt í hverju þessir yfirburðir eru fógnir, eða hvort einhver rannsókn hafi verið gerð á því hvort þessir yfirburðir séu raunveruleiki eða eða bara innantómt áráurskjaftæði sem hver étur upp eftir öðrum, eins og mér sýnist vera algengt í dag, ekki síst í pólitíkinni.

Jóhannes Ragnarsson, 6.4.2007 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband