Bréf af bökkum Þjórsár

Það er haft eftir Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni stjórnarformanni Landsvirkjunar að niðurstaða kosninganna í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík hafi "engin áhrif á virkjunaráform til lengri tíma" í neðri hluta Þjórsár.

Hvað ætli hafi að lokum áhrif "til lengri tíma" á virkjunaráform í Þjórsá? Hvað ef meirihluti Íslendinga ákveður að hlífa Þjórsá, nægir það? Hverju mun Landsvirkjun að lokum hlíta, þetta fyrirtæki sem á að heita í okkar eign? 

Við skulum rifja upp bréf sem skrifað var til Hafnfirðinga af bændum og landeigendum við Þjórsá. Það gæti rétt eins verið til allra Íslendinga, ekki bara til Hafnfirðinga:

Bréf af bökkum Þjórsár:

Kæri Hafnfirðingur.

Nú stendur fyrir dyrum atkvæðagreiðsla meðal Hafnfirðinga um stækkun álvers í Straumsvík. Með þessu bréfi viljum við vekja athygli á því, að þau áform eru mjög alvarleg fyrir fleiri en Hafnfirðinga. Við sem skrifum þér nú, búum í sveitinni sem mun leggja til rafmagnið í stækkunina, ef af verður.

Þær virkjanir sem þegar hafa verið reistar í Þjórsá eru ofan byggðar, en nú er áformað að virkja Þjórsá sísvona í túnfætinum hjá okkur. Landslagi í og við Þjórsá yrði umturnað frá Gaukshöfða og langleiðina til sjávar. Fimm stór uppistöðulón yrðu þá í einu sveitarfélagi. Urriðafoss, Hestfoss og Búðafoss hyrfu, eyjar sykkju og árfarvegurinn myndi nánast þorna upp á löngum köflum. Aðkoman að Þjórsárdal, eins þekktastsa ferðamannasvæðis Íslendinga, myndi sökkva í Hagalón. Margar bújarðir myndu skemmast og lífríki Þjórsár skaðast.

Okkur líður verulega illa við þá tilhugsun að ráðist verði að þessu fagra svæði. Engin rök hníga í þá átt að almennur stuðningur sé hér í sveitinni við þessa framkvæmd, og undrumst við þann málflutning, enda fremur ólíklegt að nokkur kæri sig um jökullón nánast gutlandi upp á tröppur hjá sér ótilneyddur.

Þess vegna biðjum við þig, kæri Hafnfirðingur, að hugsa til okkar austur í sveitum, og hjálpa okkur við að vernda stolt okkar, hana Þjórsá, skraut hennar, fossa, flúðir, hólma, eyjar og bújarðir þannig að komandi kynslóðir fái notið hennar eins og hinar fyrri.

Sælir eru hógværir því að þeir munu landið erfa.

Undir bréfið skrifa ýmsir landeigendur og bændur við Þjórsá. Nú hafa þau og við hin sem stöndum með þeim fengið dálítið andrúm fyrir von - von um að geta bjargað náttúrugersemum við Þjórsá af því að meirihluti Hafnfirðinga neitaði að stækka álverið í Straumsvík.

Ber Landsvirkjun tilhlýðilega virðingu fyrir vilja þessa fólks? Hvað ef Íslendingar vilja leyfa Þjórsá að vera í friði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

 Í upphafi skal endirinn skoða.

 

Tilefni þess að ég sendi ykkur línu, er bréf það sem búið er að bera í hús í Hafnafirði og kennt við bændur á bökkum Þjórsár.

Þegar undirskriftirnar eru skoðaðar kemur í ljós að fæst af þessu fólki á beinna hagsmuna að gæta. Aðeins, að mér sýnist, tveir aðilar sem hafa hagsmuna að gæta, sem sagt búa á jörðum sem ná að Þjórsá og vatnsréttindi hafa ekki verið seld á.

Annars er þarna mest fólk sem býr fyrir neðan allar virkjanir og svo gamalmenni sem ekki stunda búskap lengur. Það eru ekki nærri allir á þessum lista sem eiga land að Þjórsá.

Með baráttu kveðju
Guðmundur Sigurðsson
Reykhóli Skeiðum

Þetta fannst mér afar athyglisvert og hafði samband við Guðmund. Hann sagði mér þetta til viðbótar:

Það er nú því miður svo að þessir svokölluðu náttúruverndarsinnar eiga til að skreyta sig ýmist með fölskum eða sviknum fjöðrum. Það er alveg dæmigert að eins og með þetta bréf sem þeir komu af stað, að gera það á þeim tíma að erfitt er að koma vörnum við og látið líta svo út að þarna sé um einhvern meirihluta að ræða.

Staðan er sú hjá okkur sem búum við Þjórsá, að hún var gegnum aldirnar búin að herja á lönd, brjóta bakka og flæða um með tilheyrandi skaða. Eftir að farið var að virkja inn á fjöllum hefur þetta mjög breyst til batnaðar, hún er orðin mun rólegri og fastari í farvegi. Það kemur til út af því að framburður hefur minnkað mikið svo hún er hætt að hlaða undir sig.

Með þessum virkjunum sem fyrirhugaðar eru í neðri Þjórsá mundi hún vera endanlega beisluð í farvegi og landvinningar hefjast hjá mörgum þeim sem eiga land að henni, þar er jafnvel um að ræða hundruð hektara sem er möguleiki að endurheimta.

Rauða Ljónið, 2.4.2007 kl. 10:40

2 identicon

Væri nú ekki ráð að skoða hverjir það eru sem skrifa undir þetta bréf sem kom inn um lúguna hjá Hafnfirðingum umþað bil 2 mínútur í kosningar, kannski svo það væri nú örugglega ekki hægt að koma með upplýsingar á móti því. Sjá: http://www.dalkvist.blog.is/blog/dalkvist/.

BR

BR (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 10:41

3 identicon

Með sama áframhaldi færðu, Guðfríður mín, " álheila ",eins og Ómar Ragnarsson.  Legg til að þú snúir þér að öðrum málum er varða þjóðfélagið, eins og velferðarmál aldraðra og öryrkja skattamál, fjölskyldumál, atvinnumál, kvótamál, mál innflytjenda, samgöngumál launamál þeirra lægst launuðu, eins og fyrir þá sem eru í  umönnun vinna í fiski svo eitthvað sé nefnt. Þú sérð af nógu er að taka. Þú getur ekki orðið þingmaður allra Hafnfirðinga svo og allra landsmanna mema þú farir að sýn baráttu þína á öðrum sviðum en bara sem umhverfissinni.  Baráttukveðja.  

Þorkell Sigurjónsson (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 11:54

4 identicon

Ég vil framtíð þar sem hrein orka íslands er virkjuð, vatnsorka, því mun meiri mengun fylgir jarðvarma. Ekki legst ég þó gegn virkjun jarðvarma en kýs þessa forgangsröð. Hvernig orkunni er ráðstafað er svo stóra spurningin. Það skiptir mig litlu hvort það er gert fyrst um sinn í 5-7 álverum, þau eru aðeins 2 starfandi í dag og það þriðja að taka til starfa.  Rafokusamningar renna út og þá er staðan endurmetin og hagstæðra verða leitað á ný.  Auðvitað mun aldrei öll orkan fara í álver. Mikið af orku mun seinna fara til að hlaða rafbíla. Hugsanlegt er að rafgreina vatn til að framleiða vetni fyrir vissar tegundir farartæka eins og flugvélar. Vetnisbílar munu ekki geta keppt við rafbíla - það er einfaldlega betra að nota rafmagnið beint þ.e. hlaða því inná rafgeyma og nota þannig.  Vetni gæti samt orðið góður kostur fyrir flugið þar sem það er orkumikið og létt og rafgeymar vonlausir þar.  Íslendingar munu sífellt meir nýta sér orku landsins til hagsbót fyrir okkur öll.  Sjálfsagt mun álverum fækka seinna meir og annað nýta hina endurnýjanlegu orku en þangað til er tilvalið að byggja nokkur álver og eiga góðar og traustar virkjanir frítt og endurráðstafa svo orkunni þegar hentar.  Þetta er glæsileg framtíð sem við eigum á þessu orkumikla landi okkar og þetta er að gerast í þessari röð.  Auk þess höfum við alls konar þekkingariðnað sem er að blómstra svo þetta lítur bara bærilega út hjá okkur.  Rannsóknarþjónusta Háskólans er ágætt dæmi um slíkt. "Rannsóknaþjónustan er þjónustustofnun fyrir íslenskt þekkingarsamfélag sem aðstoðar við öflun styrkja til þekkingaröflunar, greiðir fyrir hagnýtingu þekkingar og styrkir getu einstaklinga og samfélagsins til að takast á við verkefni morgundagsins." segir á heimasíðu hennar. 

Orka og þekking mynda saman þekkingarorku framtíðarinnar.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband