Föstudagur, 30. mars 2007
Skrumskæling lýðræðisins... en við sigrum samt
Ég er heit stuðningskona íbúalýðræðis. Megi það lifa og dafna sem lengst og sem víðast um allt Ísland. Megi lýðræði á Íslandi þróast á þann veg að við fólkið í landinu fáum virka aðkomu, þátttöku, áhrif og völd á sem flestum stigum samfélagsgerðarinnar.
En þvílíka skrumskælingu og niðurlægingu á lýðræði eins og nú blasir við í Hafnarfirði hef ég sjaldan séð hérlendis.
Ég hef setið alla kynningarfundina sem haldnir hafa verið af hálfu Hafnarfjarðarbæjar um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þessir fundir hafa að ég held tekið nokkuð á alla viðstadda. Það er skiljanlega mikill hiti og ólga í andstæðum fylkingum og það finnst og sést hvert sem komið er.
Á þessum fundum er ýmislegt sem hefur vakið furðu mína.
Eins og til dæmis þetta:
Hverjum er alltaf boðið að vera þar með hverja framsöguna á fætur annarri um framtíð Hafnarfjarðar? Álrisanum Alcan.
Hverjum leyfist að vera í tuga milljóna króna kosningabaráttu og líkja sér við heilt stjórnmálaafl í Hafnarfirði? Álrisanum Alcan.
Í skjóli þagnar og ábyrgðarleysis annarra, í skjóli fáheyrðs aðstöðumunar, yfirburða valda og fjárausturs, fær erlendur álrisi og hagsmunaafl að vaða hér uppi með botnlausar fégjafir, gagnagrunna, auglýsingar, bæklinga, framsögur og sölumennsku í nafni lýðræðisins upp á tugi ef ekki hundruð milljóna króna. Margfalt það fé sem heilu stjórnmálaflokkarnir eyða í kosningabaráttu til Alþingis Íslendinga.
Hvað fá hin lýðræðislegu og þverpólitísku grasrótarsamtök íbúanna sjálfra, þeirra sem raunverulega láta sig framtíð Hafnarfjarðar varða?
Ég spyr: Hver vogar sér að bjóða álrisanum Alcan að eigna sér Hafnarfjörð með slíkum hætti? Hver býður lýðræði til kaups á silfurfati?
Þeir eru margir sem treysta á það í þögninni að skrumskæling lýðræðisins muni tryggja stækkun álvers. Þeir munu verða fyrri djúpum vonbrigðum á morgun af því að þá held ég að Hafnfiðingar hafni stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, þrátt fyrir aðstöðumuninn. Af útsjónarsemi, krafti og dugnaði eru nefnilega íbúar Hafnarfjarðar að heyja afdráttarlausa baráttu við ofríkið. Ofríkið sem landeigendur við Þjórsá og víðar hafa búið við árum saman. Fólk víða um lönd í grennd við Þjórsá á ómældan heiður skilið fyrir hetjulega baráttu þeirra til varnar Þjórsárverum, einni af ómetanlegum perlum þessarar þjóðar - perlum sem aldrei, aldrei verða metnar til fjár. Já, viti menn, það er nefnilega sumt í lífinu sem aldrei verður metið til fjár.
Hafnfirðingar eru nú að fá smjörþefinn af því ofríki sem við er að eiga í þessum efnum.
Velmegun og kraftur einkennir fjölmörg lönd í kringum okkur sem ekki búa yfir einu einasta álveri. Sóum ekki okkar stórkostlegu endurnýjanlegu orkugjöfum á altari mengandi stóriðju. Finnum kraft og trú og bjartsýni hið innra á leiðir sem ekki krefjast slíkra óbætanlegra fórna á náttúru okkar og umhverfi - með viðhangandi efnahagslegum og félagslegum afleiðingum sem allir landsmenn þekkja nú þegar.
Veljum bjartsýni og hugdirfsku og sátt við landið. Við erum það sem við þorum, ekki það sem við óttumst.
Athugasemdir
Takk fyirr enn einn frábæran pistilinn kæra Lilja. Bestu baráttukveðjur,
Hlynur Hallsson, 30.3.2007 kl. 13:21
Skrumskæling á lýðræði??
Haldnar eru frjálsar kosningar um tiltekið málefni og hagsmunaðilum heimilt að kynna sinn málstað án íhlutnunar eða takmarka frá stjórnvöldum. Þetta kallar þú skrumskælingu á lýðræði! Ef ég skil þig rétt er þessi skrumskæling tilkomin vegna of mikils upplýsingaflæðis frá annarri fylkingunni. Áróðurinn á semsagt að vera 50/50, fullkominn jöfnuður
Nú hefur talsvert hallað á álverssinna hér á blogginu - er ekki rétt að takmarka bloggfærslur þeirra sem eru á móti stækkuninni, svona til að gæta jafnréttis. Annað er auðvitað skrumskæling á mál- og prentfrelsinu.
Stefán Páll Ágústsson
Stefán Páll Ágústsson, 30.3.2007 kl. 15:52
Tek undir með Stefáni hér. Það er bara hið besta mál að annar aðilinn sé að senda frá sér gott og mikið upplýsingaflæði, væri auðvitað betra að allir aðilir reyndu það. Í þessu tilfelli er betra að vita meira til að geta tekið afstöðu til málsins.
Miðað við stefnuskrá þess flokks sem þú kennir þér við, geri ég ráð nú ráð fyrir afar heftu frelsi einstaklinga á þessu skeri ef þið komist til valda.
Getur ekkert verið sár yfir því að annað aðilinn sem þú berð kala til skuli líka láta í sér heyra. Þetta er bara pirra þig og þú miklar þetta fyrir þér og um leið dreguru úr ópunum sem koma frá þinni hlið.
Í dag hef ég haft útvarpið aðeins á og hef einiungis bara heyrt auglýsingar frá Sólarmönnum, ekki kvarta ég yfir því finnst það bara sjálfsagt.
Hættu bara að mikla þetta svona fyrir þér og reyndu horfa hlutlaust á þessa hlið málsins og þá sérðu þetta er nokkuð jafnt í heildina litið. Sólarmann hafa látið í sér heyra í mun lengri tíma en hinn póllinn og það versta er þeir eru kalla alla lygara nema sig sjálfa meðan allir aðilar eru sekir um skrökva.
Rúnar Sigurður Sigurjónsson, 30.3.2007 kl. 16:12
Sæl Guðríður Lilja,
Takk fyrir þinn pistil. Mér þykir alltaf jafn leitt þegar fólk ætlar að skjóta niður íbúalýðræði (þó við skiljum það ólíkt) bara til þess að hygla eigin málstað. Ég er stuðningsmaður íbúalýðræðis einsog þú en nota ekki tækifærið til að brjota það niður þó mér mislíki málefnið eða andsæðingurinn.
Engin hefur fengið að kjósa eða segja neitt um þetta áður - enginn hefur fengið flókin lög eða flókið pólitískt eða lagalegt ferli matreidd niður í einfalt val. Að mínu mati er kosningin mikil framför þó eðlilegt sé að ræða ýmislegt kringum hana - en alla vega það skásta hingað til. Við höfum fengið nýjan möguleika í því að hafa áhrif á umhverfi okkar.
Síðan ætla ég í lokin að spyrja þig hvort þú sért hlutlaus og sanngjörn þegar þú metur hið lýðræðislega ferli. Hvað þýðir til dæmis þetta orðalag hjá þér: "Hvað fá hin lýðræðislegu og þverpólitísku grasrótarsamtök íbúanna sjálfra, þeirra sem raunverulega láta sig framtíð Hafnarfjarðar varða?". Eru þessi samtök lýðræðislegri en kosningin sjálf.
Góð kv. Sverrir Óskarsson
Sverrir (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 16:53
Frábær pistill og orð í tíma töluð.
Magnús Andrésson (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 18:49
Hvernig er það, treystir þú okkur Hafnfirðingum, ekki til að taka sjálfstæða ákvörðun í málinu. Átti Hafnarfjarðarbær, þ.e. við útsvarsgreiðendur, að kosta ,,mótbaráttu" gegn Alcan. Ég veit ekki betur en að þetta sé lýðræði í sinni bestu mynd, þ.e. að við íbúar Hafnarfjarðar fáum að greiða um það atkvæði hvort bærinn okkar leyfi stækkun álversins. Ég er búinn að greiða atkvæði, gerði það utankjörfundar því ég er ekki á landinu sem stendur. Ég nýtti mér minn atkvæðisrétt og hvet aðra til að gera það líka og greiða atkvæði af sinni bestu sannfæringu. Ég ætla ekki að fólki hér hvað það eigi að kjósa, ég treysti fólki til að taka sjálfstæða ákvörðun en aðalatriði er að mæta og láta skoðun sína í ljós með því að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Kveðja frá Sarajevo í Bosníu, þar sem umhverfisvernd á mjög langt í land. G.Fylkis
G.Fylkis (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 19:05
Það er með ólíkindum að upplifa það að sitja heima hjá sér og hlusta á "stærra og betra álver" í auglýsingatíma Ruv. Maður fær þetta ekki til að koma heim og saman fyrr en maður fer að hugsa um það að þeir sem græða á þessu búa víðs fjarri Hafnarfirði. Þeir eru hip og kúl heimsborgarar sem flytja bara þangað sem ekki er mikil mengun og borða lífrænt ræktaðan mat. Ferðast reyndar á þyrlum og einkaflugvélum á milli staða en það er bara af því að tími milljarðaamæringa er svo hrikalega dýrmætur.
Ég er mikil áhugamanneskja um íbúalýðræði og tók þátt í að stofna samtök sem einbeita sér að íbúalýðræði og umhverfismálum. Við höfum unnið af miklu kappi að því að kynna okkur skipulags- og umhverfismál og reynt að hafa góð áhrif í okkar sveitarfélagi. Ég held að það hafi tekist ágætlega nema það að það hefur ekki gengið vel að koma af stað almennri og lýðræðislegri umræðu um málin í bæjarfélaginu, kannski of mikill svefnbær?!
Við í mínu bæjarfélagi erum ekki svo illa sett að hafa svona Straumsvíkurskrímsli í sveitarfélaginu né stóran risa sem gætir hagsmuna þess og ég ætla ekki að líkja umhverfis- og skipulagsvandamálum Mosfellsbæjar saman við þau sem Hafnarfjörður glímir við. Bærinn á samt við víðtæk skipulagsvandamál að ræða sem stjórnendum hans er af einhverjum ástæðum mjög illa við að ræða á opinn hátt. Hér eru VG í bæjarstjórn en hafa engan áhuga á íbúalýðræði eða samstarfi við það fólk sem hefur eldheitann áhuga á íbúalýðræði, umhverfismálum og fleiru því sem manni finnst smella eins og flís við rass við stefnu VG. Mér finnst að þú ættir að aumkva þér yfir félaga þína hér á þessum smánarbletti kragans og halda námskeið um íbúalýðræði. Þau eru ekki einu sinni búin að læra að blogga! Eins stórkostlegt og bloggið er fyrir lýðræðið. Það er ein vinstri græn sem heldur upp nafni flokksins hér í Mosó en ég er ekki viss um að það sé VG til framdráttar.
Halli Guð (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 03:36
Mér finnst einfaldlega fáránlegt að fyrirtæki skuli ýtt út í kosningabaráttu fyrir mögulegri stækkun. Hélt að það væri einfaldlega fagnaðarefni fyrir byggðina að það gengi vel hjá Alcan. Ekki nóg með að fyrirtækið færi bæjarbúum mörg störf með beinum hætti, heldur eru fjölmörg fyrirtæki sem byggja mikinn hluta rekstur síns á þjónustu við álrisann. Ég er sammála Lilju að þetta sé skrumskæling lýðræðis, en ekki á þeirri forsendu að Alcan sé að borga dýra kosningarherferð, heldur á þeirri forsendu að þetta sé málefni sem ætti alls ekki að þurfa að kjósa um: vöxtur fyrirtækja þegar hann er mögulegur ætti að vera sjálfsagður hlutur, en ekki takmarkaður af misjafnlega vitrum einstaklingum með róttækar stjórnmálaskoðanir.
Hrannar Baldursson, 31.3.2007 kl. 10:16
Góður pistill hjá þér.
Svava frá Strandbergi , 31.3.2007 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.