Upp með hnefann, Helgi!

Ég var í strætó. Ég var á hlaupum að verða of sein og þaut upp í strætó sem ég hélt að væri sá rétti og tæki mig beinustu leið. Í ljós kom að svo var ekki. Í stað þess að fara greiða leið frá Lækjartorgi að Grensás endaði ég í ótrúlegustu útúrsnúningum um allt Vogahverfið og víðar áður en ég komst á leiðarenda.

Maður á alltaf að flýta sér hægt.

En eins og svo oft vill verða þá varð það mér til happs að villast af leið. Þegar á Langholtsveginn kom sá ég nefnilega gamalkunnugt andlit sitja inni í strætóskýli, skeggjaðan eldri mann með heimatilbúið mótmælaskilti. Þarna sat hann í kuldanum að mótmæla, hann sem dettur aldrei af baki og gefst aldrei upp.

Helgi Hóseasson.   

Hin eina sanna frumgerð af Mótmælanda Íslands sem gerir okkar litla samfélag litríkara og auðugra - burtséð frá því hvort við erum sammála eða ekki. Maður fær nefnilega stundum á tilfinnninguna að við séum öll farin að steypast í sama mót - að það sé að verða færra og færra um afgerandi og frumlega karaktera sem skera sig raunverulega úr og þora að vera öðruvísi, sérvitrir og þeir sjálfir. Komið út, sýnið ykkur, við þurfum á ykkur að halda!

Ég tók kipp af kæti þegar ég sá Helga sitja þarna í biðskýlinu og veifaði um hæl. Hann tók að sjálfsögðu strax á móti, veifaði skiltinu og setti hnefann beint upp í loft - við sigrum að lokum!

Farþegi kom upp í vagninn og þarna sátum við, Helgi með hnefann á lofti í gegnum rúðuna á strætóskýlinu, og ég brosandi með hnefann á lofti í gegnum rúðuna á strætó.

Þetta var skemmtilegur fundur. Stuttur og snaggaralegur, eins og þeir eiga að vera, með skýr skilaboð. Eigum við að kalla það "þverpólitísk" skilaboð?

Svona getur nú verið gaman í strætó.

Ekki varð ferðin síðri þegar á endastöðina kom því að þar vatt sér að mér kona í biðskýlinu sem spurði mig hvort ég ætti merki. Barmmerki VG. Ég hélt nú aldeilis og veiddi eitt upp úr töskunni minni og smellti á hana. Þá sagði þessi ágæta kona mér að hún hefði ekki kosið í þrjátíu ár en nú ætlaði hún að breyta til og fara á kjörstað. Hún ætlaði að kjósa okkur. Hún sagði að sér ofbyði ójöfnuðurinn og óréttlætið og milljarðarnir sem enginn fengi að sjá, að minnsta kosti ekki fólk eins og hún. Og hún bætti við að nóg væri komið af því að ráðast gegn landinu okkar, þetta gengi ekki lengur.

Mæltu kvenna heilust kona góð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Þegar Helgi er á horninu fær maður þessa tilfinningu að lífið sé í réttum skorðum og að ekkert fái því breytt. Ég er íbúi Vogahverfis og keyri framhjá Helga 2 - 3 sinnum á dag. Þegar hann er ekki á horninu sínu þá verð ég áhyggjufull - bæði vegna gamla mannsins og svo finnst mér eins og eitthvað sé að fara úrskeiðis. ´

Þvílík elja!

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 27.3.2007 kl. 10:25

2 identicon

Gaman og sérlega gleðilegt að lesa pistilinn  þinn í morgunn,GLG. Bjartsýni þín og hlýleiki skín af skrifum þínum. Helgi er tákn baráttu og seiglu í því sem hann er að gera og er  fyrirmynd fyrir okkur hin. Í minni heimabyggð sakna ég fólks sem ekki gekk troðnar slóðir, en á árunum áður var fólk með "karakter og er viss eftirsjá af því. Nú má enginn skera sig út úr fjöldanum öðruvísi en vera lokaður inni eða fylltur af meðulum, allir eiga að vera eins. Stórkostlegt hjá gömlu konuni  hún veit greinilega hvað hún syngur. Enn og aftur, svona eiga pistlar að vera,takk takk.

Þorkell Sigurjónsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 12:54

3 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

Frábært að lesa þessa ferðasögu þína 

Sædís Ósk Harðardóttir, 27.3.2007 kl. 14:17

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.3.2007 kl. 15:08

5 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mikið hefði verið gaman að vera fluga á vegg í þessari strætóferð...

Helgi er mikil hetja í mínum huga einmitt út af því hann hefur aldrei skort hugrekki, hvorki til að segja hug sinn, né vera hann sjálfur:)

Takk fyrir þessa bráðskemmtilegu sögu... þú ert alveg einstök

Birgitta Jónsdóttir, 27.3.2007 kl. 16:01

6 Smámynd: Kristján H

Frábær ferðasaga með broddi... TAKK ...  Þið eruð náttúrulega bæði hetjur, með hugrekki til standa fyrir ykkar málstað...

Kristján H, 27.3.2007 kl. 16:06

7 Smámynd: Alma Lísa Jóhannsdóttir

Þegar ég las þessa færslu fylltist ég af söknuði, ég man ferðirnar í strætó, neðanjarðarlestum og sporvögnum í Osló. Gerðist mjög oft eitthvað skemmtilegt, hitti gott fólk, sá eitthvað sérstakt, stutt bros eða hvatningaorð - í dag endalausar bílferðir - ein á ferð oft á tíðum - ég sakna almenningssamgangna sem alvöru valkost! Alltaf gaman að hitta fólk eins og Helga! Tær snilld.

Lífið getur verið svo skemmtilegt. Áttaði mig á því í dag á göngu minni um bæinn að stundum en nóg að brosa til fólks sem verður á vegi manns, það verður hissa, brosir tilbaka - þarf oft ekki meira til að gera daginn skemmtilegann.... gangi þér vel áfram snillingur- kv alma

Alma Lísa Jóhannsdóttir, 27.3.2007 kl. 17:29

8 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Já, tek undir með ykkur, að mannlífið þarf á öllum sínum fjölbreytileika að halda, bara að vera svolítið góð við hvort annað og brosa.

Hef það sem kjörorð í dag, þó ég sé svona sifjuð, svaf svo illa í nótt.

G.Helga Ingadóttir, 27.3.2007 kl. 17:42

9 Smámynd: TómasHa

Einhverjar hugmyndir hvernig á að ná í milljarðana hans Hannesar?

TómasHa, 27.3.2007 kl. 18:19

10 identicon

Og ég sem hélt að þú værir svo flínk að taka strætó að þú gætir bara ekki villst. En þú er kannski bara nýbyrjuð, svona í aðdraganda kosninga, að taka strætó? Ekki væri gott ef þú villtist mikið við stjórnun samfélagsins eftir kosningar. Er nokkur hætta á því? Ertu nokkuð með hugmyndir um hvernig er hægt að taka af hinum ofsaríku og láta okkur sem minna eigum hafa, mig og konuna í biðskýlinu? Ef þú finnur leið hlýt ég auðvitað að finna það á eigin skinni, líkt og aðrir landsmenn. Ef vel gengur verðurðu kannski kölluð Evita. Maður getur varla beðið eftir kosningajólasveininum fyrir spenningi. Ertu annars með hugmynd að nafni fyrir hann? Nöfn eins og Mannréttindasleikir, efnahagskrókur eða umhverfissníkir eru bara ekki nógu góð. Þú finnur út úr þessu. Kær kveðja og gangi þér vel.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 21:19

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Það er alltaf gaman í strætó. Miklu skemmtilegra heldur en í bíl. 

Svava frá Strandbergi , 28.3.2007 kl. 00:31

12 identicon

Hæ Lilja.
  Já, það er fullt af skrítnum og skemmtilegum karakterum í kringum okkur ef við bara stöldrum aðeins við og horfum í andlitið á fólki.  Mér finnst svolítið eins og fólk forðist örlítið að horfa á náunga sinn, sé hálfhrætt, haldi kannski að hann ráðist jafnvel á sig með óbótaskömmum eða einhverju verra.  Nei, lítið í kringum ykkur.  Helgi á reyndar ekki sinn líka, en svo er um marga aðra ef grannt er skoðað.  Það eru ekki allir komnir inn á stofnun, Þorkell.

Skundi (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 00:49

13 Smámynd: Ólafur fannberg

eini sanni mótmælandinn á landinu

Ólafur fannberg, 28.3.2007 kl. 03:19

14 identicon

Takið líka eftir hvað það er oft mikið bílflaut á þessu horni hans Helga... Allir að sýna kallinum stuðning. ;)

Maja Solla (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 12:11

16 Smámynd: Kristján Pétursson

Góð frásögn af Helga Hóseasson,ég hef alltaf verið hrifinn af þessum karli,sem hefur kjark og dug að koma sínum hugsjónum á framfæri.Lætur sig engu varða hvað öðrum finnst um hans aðgerðir,er alltaf sjálfum sér samkvæmur.

Kristján Pétursson, 29.3.2007 kl. 23:50

17 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

flott blogg ! og myndræn . yndislegt að svona fólk sé til sem gefur lífinu lit, hann ætti kannski að vera með á lista ykkar vs

ljós til þín steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 30.3.2007 kl. 05:18

18 Smámynd: Bárður Ingi Helgason

Talandi um fjölbreytilegt mannlíf, eða skort á því á Íslandi, er ég staddur þessa stundina í höfuðborg Bandaríkjanna. Fyrir framan Hvíta húsið hefur kona búið í tjaldi síðan árið 1981. Hún er mikill mótmælandi stríðsreksturs yfirleitt og hefur meðal annars mynd af núverandi forseta til sýnis þar sem er búið er að photoshopa hefðbundið ¨Talíbanaskegg¨ á hann. Á myndinni stendur ¨The real terrorist¨. Ég og hópurinn sem ég ferðast með gáfum okkur á tal við hana í gær og þá sagði hún okkur frá því hvernig hermenn réðust á hana fyrir framan Hvíta húsið árið 1984. Ok, þetta var í kalda stríðinu þar sem öfgarnar voru rosalegar. En eftir að við vorum búin að tala við hana í nokkurn tíma voru jakkafataklæddir náungar með svona agentdrasl á eyranu farið að fylgjast ískyggilega mikið með okkur. Í rauninni voru þeir bara beint fyrir aftan okkur að fylgjast með samtali okkar við konuna. Eftir að við héldum síðan áfram sáum við að mennirnir tóku til við að tala konuna til. Talandi um það að steypa fólk í sama form.

Bárður Ingi Helgason, 30.3.2007 kl. 23:44

19 Smámynd: IGG

Sem mikil vinkona Helga Hóseassonar þykir mér vænt um að þsesa þessa frásögn. Ég mun flytja hinum fréttir af þessum skrifum og umsögnum ykkar hinna um hann og veit að það mun sannarlega gleðja þennan mikla baráttujaxl. Helgi er eitthver hreinskiptnasti, heiðarlegasti og ljúfasti einstaklingur sem ég hef kynnst. Hann er okkur gott fordæmi í mörgu. Með baráttukveðju,

Ingibjörg G. Guðmundsdóttir

IGG , 1.4.2007 kl. 11:43

20 Smámynd: Guttormur

Takk fyrir þennan pistil Lilja. Já hann Helgi er ötull, mættur fyrir fyrsta hanagal á morgnana og situr og stendur við með kaffi og matarpásum þó, fram á kvöld.

Við hin í hverfinu erum líka dugleg að koma skoðun okkar á framfæri með ýmsunm ráðum og reynum að hafa áhrif á það sem okkur finnst betur megi fara, t.d. Sundabrautin sem við íbúar vorum ósátt við en með samráðsferlum og íbúalýðræði lítur út fyrir góða lausn og hún fari í göng en gangahugmyndin var einmitt framlag frá íbúasamtökum hverfisins.

Nú stöndum við í baráttu fyrir opnum grænum svæðum í Laugardalnum sem eru hluti af lífsgæðum allra Reykvíkinga. Vonum það besta en róðurinn er þungur. 

Guttormur, 1.4.2007 kl. 23:15

21 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Takk fyrir skemmtilega ferðasögu, hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Helga og hans baráttu, sannkölluð hvunndags hetja sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur.

P S. Ef þú ferð inn á bloggið mitt getur þú séð texta sem ég samdi Helga til heiðurs...eflaust ekki burðugur skáldskapur en segir það sem mér finnst.

Georg P Sveinbjörnsson, 2.4.2007 kl. 18:21

22 Smámynd: IGG

Í dag sýndi ég Helga skrifin um hann hér á síðunni og hann varð voða kátur með það og þakklátur.

IGG , 2.4.2007 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband