Allar skemmdar í skjóli frelsisins

Það er magnað hvernig ákveðin hagsmunaöfl samfélagsins komast upp með að tala um "frelsi" þegar þau eru í raun að tala um eigin hag - og þá oftast eigin græðgisvæðingu og völd.

Það er t.d. agalega klókt af markaðsöflunum og talsmönnum þeirra að nota orðið "frelsi" þegar fjallað er um skefjalausa markaðshyggju. Markaðsöflin reyna ekki að ná völdum, þau reyna ekki að "stýra" okkur, þau reyna ekki að hafa "áhrif" eða "afskipti" af börnunum okkar, sei sei nei. Þau eru bara "frjáls".

Hver getur verið á móti frelsi?

Í þessu orðfæri verða allar hugmyndir um samfélagslega ábyrgð, samkennd og sterkt velferðarkerfi að "ríkisafskiptum" og "forræðishyggju".

Auglýsingar kóka kóla í hverju horni ("kynlíf með zero-forleik" stendur á nýju zero-kókflöskunni, sykurlaust fyrir börn) standa bara fyrir frelsi en ekki "áreiti", "áhrif" eða "afskipti". Skólatannlækningar standa hins vegar fyrir óþolandi "ríkisafskipti" (enda er búið að leggja þær af í nafni frelsisins). Gjaldfrjáls tannlæknakostnaður fyrir börn og unglinga stendur fyrir úrelta félagshyggju, enda er búið að henda því öllu út á hafsauga (í nafni frelsisins). 

Það að reyna að koma í veg fyrir að gosdrykkjum sé bókstaflega verðstýrt ofan í börn og unglinga stendur fyrir óþolandi "forræðishyggju" og er skerðing á frelsinu. Lýðheilsustöð, hvað? Hinn frjálsi markaður ræður!

Einhvern veginn segir mér svo hugur um að þriggja ára börn með allar skemmdar og foreldrar þeirra sem hafa ekki efni á að fara reglulega til tannlæknis upplifi sig ekkert sérstaklega mikið sem handhafa frelsisins.

Sum öfl hafa nefnilega miklu meiri áhuga á "frelsi markaðarins" heldur en frelsi okkar mannanna, og það sést út um allt.

Hvernig ætla óheftu markaðsöflin og allir þeir sem standa svo fallega fyrir frelsinu (og hripleku velferðarkerfi) að taka á hruni í tannheilsu íslenskra barna? Er það meira zero-kók, eða hvert er svarið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gúrúinn

Það er ekki bara núllkókið sem skemmir tennur. Markaðshyggjan hefur bætt sykri í flestar vörur ætlaðar börnum, ss kókómjólk, söfum (Svala, Trópí og hvað þetta allt heitir), jógúrt-vörum og öðrum "heilsu"vörum. Ekki furða þótt tennur þeirra skemmist. Og þær fást að skemmast á meðan tannheilsa er ekki talin hluti af eðlilegri heilsu og heilsuvernd. Hvers vegna er ekki hægt að niðurgreiða tannlækningar eins og aðrar lækningar? Er betra að allir séu komnir með falskar um tvítugt?

Og ef ekki er bætt sykri við, þá er eitrað með aspartam! Enda gengur ekki að halda upprunalega og eðlilega bragðinu - það verður að venja fólk sem fyrst á ávanabindandi sykurinn.

Svo finnst mér þessi zero auglýsingaherferð döpur. Hún er hvorki á íslensku né ensku heldur samsulli (eins og drykkurinn sem verið er að auglýsa er að öllum líkindum). Auk þess finnst mér ósmekklegt að vera að flagga orðum eins og forleik um allt, hvað ætli að séu margir foreldrar í vandræðum með að útskýra það fyrir ungum börnum sínum? Ég vona að nafn drykksins sé spá fyrir hagnaðinn af sölu hans.

Gúrúinn, 20.3.2007 kl. 15:47

2 Smámynd: arnar valgeirsson

Langar að benda á grein í Fréttablaðinu í gær, mánudag, eftir Ragnar Halldórsson kvikmyndagerðarmann. Hún heitir "ávextir frelsisins gætu hætt að vaxa" og er lofrulla um sjálfstæðisflokkinn og varnaðarræða gegn vinstri stjórn. Maðurinn hefur nú sínar skoðanir og enginn að banna honum það en hægri stjórn er vissulega fín, fyrir suma, en vinstri stjórn er fín fyrir alla. En auðvitað myndu einhverjir hafa það aldeilis helvedde fínt með sömu einstefnu og nú er. Honum finnst forræðishyggja vinstri manna aldeilis stórhættuleg en grein þessi er ein forræðishyggja, semsagt leyfa þeim sem hafa það fínt að græða meira og hinir verða bara að redda sér út úr skítnum. En þar sem hann lufsast á lyklaborðinu þá koma setningar eins og...

"Bursta þarf tennurnar á hverjum degi, þvo sér, klæða sig og borða - slá blettinn, mála og endurnýja. Að öllu þarf að hlúa til að það grotni ekki niður. Líka lýðræðinu. Líka frelsinu. Frelsið er aldrei endanlegt heldur stöðug áskorun eins og lífið. Þetta skilur forysta Sjálfstæðisflokksins betur en oddvitar annarra stjórnmálaflokka á Íslandi".

Nú þekki ég ekki manninn og hann er jú kannski bara fínn en ég er talsvert ósammála honum, bara nokkuð mikið eiginlega, en hann líkir okkur við fræ sem þurfi sól og góða mold til að dafna.  En niðurlagið er pínu klikkað, finnst mér, jafnvel kómískt þar sem hann segir ofsóknir í fyrirtæki og heimili til að þvinga fram pólítískan rétttrúnað verða við lýði í nánustu framtíð, komist á vinstri stjórm, ófrjáls opnunartími verslana og bjórbann. "Ávextir frelsisins munu hætta að vaxa". Segir Ragnar, smeykur um eitthvað sem ég ekki skil.

 Það er þó punktur í þessu hjá honum, maður þarf að bursta tennurnar á hverjum degi og kominn tími til að mála og endurnýja.

arnar valgeirsson, 20.3.2007 kl. 18:24

3 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Það var ágætt hjá manninum að tala um það að bursta tennurnar, en af hverju hann talar ekkert um tannlækningar vitum við mætavel. En það er þetta með stjórn orðræðunnar og gildishlaðin orð. Þetta hefur, eins og bent er réttilega á, þróast þannig að þeir sem dirfast að fara með umræðuna annað, þá er maður á móti frelsinu. Og það ber vott um skort á framsýni og "eðliegri" þróun markaðar og samfélags! 

Jón Þór Bjarnason, 20.3.2007 kl. 20:18

4 identicon

Alltaf gott hjá VG að finna sem mesta að því sem svo marga langar að öðlast - Frelsi.  Forræðishyggjan og frelsisvonin eiga ekki samleið. Ég skil ekki alveg hvað VG er illa við frelsið, sjálft orðið og hugmyndin virðist fara í taugarnar á þeim. Þetta er svona eins og að tala á móti ljósi því alltaf má finna myrkur. Held þetta sé einhver sönglandi eða síbylja sem VG hefur tamið sér.  Svo er alltaf verið að finna að hinum vöndu "markaðsöflum", "auðhringum" og öðru hættulegu að sögn. Sannleikurinn er bara sá ágæta Guðfríður að það er óralangt á milli okkar í skoðunum og skynjun en við erum vonandi flest öll heiðvirt fólk og kunnum að haga seglum eftir vindi  líka þegar hann blæs hryssingskalda úr átt VG.

"Free at last! Free at last! Thank God Almighty we are free at last!" kyrjaði Martin Luther King.

kveðja

Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 20:26

5 identicon

Nú hafa foreldrar þessara 3ja ára barna ,sem þú talar um, einmitt frelsi til þess að velja að velja ekki gosdrykki sem ógna tannheilsu barna þeirra! Flóknara er það nú ekki!

Bjarni (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 22:06

6 identicon

Ég vil byrja á því að hrósa Guðfríði fyrir að hitta naglann á höfuðið rétt einu sinni. Það gleður mig mjög að svo heilsteypt persóna skuli fara í pólitíkina.

Ég er mjög frjálslyndur maður en mjög meðvitaður, að ég held, um að frelsi hefur kosti og galla. Það er hægt að njóta kostanna en jafnframt fara á svig við gallana, t.d. með skólatannlækningum.

Vinstri grænir eru, að mér virðist, talsvert misskildir af hægri mönnum. Eins og Sveinn hér að ofan virðist telja að vegna þess að Guðfríður bendir á vankanta frelsisins, sé hún á móti frelsinu.

Þeir sem telja að frelsi sé fullkomið vaða í jafnmikilli villu, að mínu mati, og þeir sem segja að frelsi sé með öllu komið frá andskotanum. 

Árni 

Árni (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 22:12

7 identicon

Imba til Steina:

Ó, hve létt er þitt skóhljóð,
ó, hve lengi ég beið þín.
Það er vorhret á glugga,
Sjallavindur sem hvín.
En ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín
og nú loks ertu kominn, 
Steini minn, loks til mín.

Það eru erfiðir tímar, 
of mikið atvinnuþref.
Þarf því ekkert að bjóða,
ekki stærra álver ég hef, 
bara von mína og líf mitt,
hvort sem ég vaki eða sef. 
Atkvæðið sem þú gafst mér,
það er allt og sumt sem ég hef.

En í vor lýkur Sjallavetri
sérhvers hugsandi manns
og þá verður maísól um land allt. 
Það verður maísólin okkar,
okkar sæta hjónabands.
Fagra Ísland mun fæðast

og saman við höldum á fána 
hins rauðgræna Framtíðarlands.

Steini Briem (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 23:00

8 identicon

Skólatannlækningar standa ekki endilega fyrir ,,óþolandi "ríkisafskipti".''
Það fer algerlega eftir því hvort þær séu á vegum ríkisvaldsins eður ei.

Það er á forræði foreldra að sjá til þess að börnum þeirra vegni vel.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 23:45

9 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Frelsishugtakið er orðið ansi teygjanlegt, það er nokkuð ljóst. "Frelsi til að vaða yfir aðra" er frelsið sem frjálshyggjan boðar og þetta frelsi er að sjálfsögðu ekki ókeypis! Þvílík fáfræði hjá þér Sveinn minn að blanda King Jr. inn í frjálshyggjuslaginn. Þetta er jú allt önnur tegund af frelsi. Hvað varðar þessa zero-drykki þá er þetta örugglega enn verra en sykurinn. Hér túlkast hugtakið "frelsi til að nýta sér fáfræði annarra". Pétur Guðmundur: Á þá að banna fátæku fólki að eignast börn? Hvar er þá þeirra frelsi? Þetta er greinilega snúið.

Góð grein Guðfríður Lilja, og tímabær. 

Laufey Ólafsdóttir, 21.3.2007 kl. 08:45

10 identicon

Skil nú ekki alveg hvernig Sveinn fær það út að greinarhöfundur sé að finna að frelsinu. Hún er þvert á móti að finna að því hvernig markaðsöflin misnota orðið frelsi. Ég held að allir vilji frelsi, hvar sem þeir standa í pólitík. Líka vinstri-grænir. 

Ég er afar sammála þessari grein. Það er gersamlega óþolandi hvernig herjað er á mann með alls konar drasli og skrumi, jafnvel með siðferðislega vafasömum auglýsingum. Og ráðist á veikasta blettinn - börnin manns. Það er frelsisbaráttan nú á dögum, að verjast draslmenningunni. Og maður verður að berjast með kjafti og klóm, þola háð og spott ef maður syndir á móti straumnum.

Það er lítil dýpt í frelsinu ef það er bara val á milli kók eða kók-zero. Fólk á að geta valið að fylgja sinni lífsskoðun, valið að standa utan við bullið og vitleysuna. Það er bara mjög erfitt að fá að vera í friði með það eins og herjað er á börnin manns.

Ætli VG sé ekki bara mest frelsisunnandi flokkurinn ;)

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 09:01

11 identicon

Þegar ég skrifaði um frelsi hér að ofan skrifaði ég um frelsi almennt.  merkilegt að kalla einhvern "fáfróðan" þó hann kunni að vera annarar skoðunar. Frelsið getur verið dýrkeypt. Ég hef frelsi til að borða það sem ég vill? Er vissulega alltof feitur! Heyrist sem þið VG ætlið að leysa þann vanda fyrir mig. Gott þið ghafið lausnir á ölum vandi. Kannski ég kjósi VG.

kveðja

Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 09:11

12 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Þitt frelsi endar þar sem mitt nef byrjar, var einhverntíman haft á orði.  Frelsi er val, og stöðugt áreiti hefur að sjálfsögðu áhrif á valið.  En engu að síður felst það í frelsinu að mega auglýsa og það nota sér það allir aðilar sem á annað borð geta og eru að reyna að selja vöru, þjónustu eða bara hugmyndir.

Hvað varðar tannlækningar, þá byrjar tannheilsa barnana hjá okkur foreldrum, og þó að ég væri miklu meira en tilbúin að þiggja fríar tannlækningar greiddar með skattfé, þá er engu að síður ábyrgð foreldara að passa uppá tannheilu barnana.

Ég á þrjú börn og tannlæknareikningar minnar fjölskyldu eru nánast ekki til því að brýnt hefur verið fyrir þessum elskum að hugsa vel um tennurnar.

Bursta og brosa breitt.......

Eiður Ragnarsson, 21.3.2007 kl. 13:17

13 identicon

Þessi kommahræðsla er eitthvað slæmt kharma hjá Dharma. Ég held hann þurfi nú ekki að óttast það að menn leggist í slæpingshátt og hætti að vinna og afla sér fjár þótt reynt sé að koma á aðeins meiri jöfnuði í þjóðfélaginu. Að ríkið fari að þjóðnýta fyrirtækin eða eithvað álíka. Það er bara enginn að tala um slíkt.

Hvað varðar auglýsingarnar, Eiður, þá er það einmitt málið að auglýsendur skeyta engu hvar nef annarra byrjar. En það má náttúrulega ekki setja neinar reglur er það? Neeei, ekki skerða frelsið fyrir duglega fólkinu, ha?

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 13:52

14 identicon

Gott blogg og tharfar abendingar hja ther!

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 14:09

15 identicon

Það er heldur enginn að tala um fríar tannlækningar, bara sömu reglur og gilda um aðra heilbrigðisþjónustu. Tennurnar eru hluti af líkamanum og á ekki að vera einhver lúxus að þær séu heilar. Það er svo sem ekki neitt voðalega dýrt að fara til tannlæknis einu sinni á ári ef allt er í lagi. Ódýrara en að láta snyrta á sér hárið reglulega, ef út í það er farið. En það er nú einu sinni þannig að tennur eru misjafnar, glerungsskemmdir geta orsakað hrun á grillinu og hvað eina. Þá er fólk í vondum málum. Er ekki réttlætismál að þegar svo stendur á njóti tennurnar sömu réttinda og t.a.m. brotinn fótur? Hmmm ...

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 14:13

16 Smámynd: Þarfagreinir

Þarna hittirðu aldeilis naglann á höfuðið. Það eru nefnilega tveir meginpólar í pólitík, ekki einn. Það sem venjulega er kallað 'hægri' og 'vinstri' er annar póllinn; afstaða til afskipta af atvinnulífinu. Vinstrafólk vill meiri afskipti þar en hægra fólk. Hins vegar er hinn póllinn persónufrelsið, sem er algjörlega óháð viðskiptafrelsinu. Íhaldsmenn, til að mynda Bush og félagar í Bandaríkjunum, eru mjög fylgjandi viðskiptafrelsi, en vilja engu að síður hefta persónufrelsi með margvíslegum hætti með siðferðilegum boðum og bönnum. Ég held að persónufrelsi hafi hins vegar ekki verið svo mikið til umræðu hérlendis, þar sem fáir hafa talað fyrir heftinu þess. Þess vegna er ekki skrýtið að fólk skuli rugla þessu tvennu saman.

Óheft viðskiptafrelsi þarf nefnilega ekki endilega að leiða til frelsis einstaklinganna. Róttækir frjálshyggjumenn, það er að segja þeir sem vilja bæði viðskipta- og persónufrelsi sem óheftast, hafa jafn mikla tröllatrú á markaðskerfinu og kommúnistar forðum höfðu á því kerfi.

Í þessu samhengi finnst mér skondið að sjá Sjálfstæðismenn væna vinstri menn um forræðishyggju, þegar Flokkurinn hefur undanfarin ár farið mikinn gegn viðskiptafrelsinu og fundið því allt til foráttu - svo virðist sem ráðamönnum þess flokks finnist viðskiptafrelsið í góðu lagi, svo lengi sem það er í höndum réttra manna. Hvernig má annars útskýra aðförina gegn Baugi, til að mynda? Sjálfstæðisflokkurinn sagði aldrei neitt um einokun Kolkrabbafyrirtækjanna gömlu. Hann hefur aldrei sagt múkk um olíufyrirtækin. Þannig mætti lengi telja.

Við lifum því á undarlegum og spennandi tímum þar sem alls ekki er gott að segja hver stendur fyrir hvað. Nema kannski helst Vinstri Græn. Ykkar stefna og afstaða er kýrskýr, og er það í hæsta máta aðdáunarvert.

Þarfagreinir, 21.3.2007 kl. 14:37

17 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

margt er þarfa EN FÉGJAFIR....

peningar eru ekki allt... 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.3.2007 kl. 21:53

18 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Ég skil ekki hvernig verið er að bera saman hársnyrtingu og tannlæknakostnað. Tannlæknakostnaður er þungur baggi á efnalitlum fjölskyldum og oft ómögulegur. Þetta fólk er almennt ekki að fara í hársnyrtingu heldur.

Sveinn, ég kallaði þig ekki fáfróðan, kallaði það bara fáfræði að blanda King Jr. inn í frjálshyggjuslaginn og ekki af því ég er ekki sammála, það er einfaldlega RANGT. Ég þekki þig ekki nógu vel til að gagnrýna þína persónu í heild og læt það vera.

Laufey Ólafsdóttir, 23.3.2007 kl. 08:56

19 identicon

Martin Luther King Jr. þráði frelsið enda get hann ekki gengið að því sem gefnum hlut. Frelsi er rétturinn eða aflið til að taka þátt í athöfnum laus við stjórnun eða afskipti.  Það er okkur öllum holl áminning að þurfa að íhuga kjarna frelsins. Við hörðustu hægrimenn segi ég passið velferðina, hún sameinar okkur.  Við hörðustu vinstrimenn segi ég passið frelsis, við viljum ekki glata því - það væri ófyrirgefnalegt. 

Kær kveðja

Sveinn

Sveinn V.Ólafsson (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband