Ég vil bara vera eins og Gunnar Kvaran

"Ég vil bara vera eins og Gunnar Kvaran."

Þetta segir 9 ára hnáta í viðtali við Morgunblaðið í gær. Ég ætla að halda áfram að hafa þennan Mogga á skrifborðinu hjá mér af því myndin af litla sellóleikaranum fær mig stöðugt til að brosa. Mér finnst einfaldlega dásamlegt að til séu 9 ára stúlkur á Íslandi sem eiga sér þá ósk heitasta að vera eins og Gunnar Kvaran þegar þær eru orðnar stórar.

Eins og öll börn kann unga tónlistarkonan að meta það fallega og skemmtilega í lífinu. Hún veit fátt fegurra en sellóið sitt og hljóminn djúpa sem úr því berst. Mikið er nú hægt að læra listina að lifa af yngstu kynslóðinni...

Annars sagði forsætisráðherrann okkar í kvöld að raunveruleg hætta væri á vinstristjórn í vor. Þetta segir líka Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Þetta munu allir hægrimenn endurtaka næstu vikur.

Hin raunverulega hætta í mínum augum felst í möguleikanum á sömu stjórn og nú situr. Megum við bera gæfu til að forða sjálfum okkur frá því.

Það er eins og einn ágætis félagi minn (gamall Framsóknarmaður) sagði við mig í dag þegar ég rakst á hann úti á götu: Ríkisstjórnarflokkarnir báðir eru orðnir svo innilega þreyttir á sjálfum sér og hvor öðrum - þeir eru meira segja orðnir enn þreyttari á ríkisstjórninni en við hin!

Þá er mikið sagt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

Skemmtilega krúttlegt,  þetta með stelpuna sem lítur svona upp til Gunnars Kvarans.

Jens Guð, 15.3.2007 kl. 00:01

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Já, þetta er að sjá það fallega sem lífið býður uppá. Þú varst góð í Kastljósinu.

Tómas Þóroddsson, 15.3.2007 kl. 01:08

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Já þetta var rosalega skemmtilegt viðtal við stúlkuna. Og ég tek undir orð þín að hættan felst í þeim skelfilega möguleika að sama stjórn sitji næstu fjögur ár. En ef svo verður þá er þessari þjóð ekki við bjargandi..

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 15.3.2007 kl. 07:53

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

þú varst frábær í Kastljósinu. Vonandi næst að fella ríkisstjórnina.

En ein óborganleg minning kemur upp í huga mér í sambandi við Gunnar Kvaran. Þegar dóttir mín var u.þ.b. átta ára var hún ásamt sambýlismanni mínum Stefáni að hlusta á Gunnar leika á sellóið sitt í sjónvarpinu. 
Dóttir mín undraðist mjög hve Gunnari væri einkennilega hárprúður og spurði sambýlismann minn eftirfarandi spurningar. Hvers vegna stendur hárið á Gunnari svona mikið út í loftið Stebbi?  það stóð ekki á svarinu hjá æringjanum Stefáni.  Það er út af því að það sló eldingu niður í höfuðið á honum sagði hann án þess að skammast sín hið minnsta.  

Svava frá Strandbergi , 15.3.2007 kl. 12:03

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hæ Lilja. Varst frábær í Kastljósinu. Mikið hlakka ég til þegar þú verður komin á þing.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.3.2007 kl. 12:23

6 identicon

Auðvitað vilja ungar stelpur verða eins og Gunnar Hvar Var Hann, það væri nú annað hvort. Hann er alltaf í stuði. Það sést á hárinu. En þær vilja líka verða eins og þú, Guðfríður mín. Hver vill ekki vera skákdrottning? Ekki myndu til dæmis Hvell-Geiri og Framsóknar-Jón slá hendinni á móti slíkum titli. Þeir kunna ekki einu sinni mannganginn og Hvell-Geiri er bara eitthvað að púsla með sinni spúsu heimavið til að róa taugarnar, að eigin sögn. Ætli hann verði ekki bara að núlla eitthvað á Kanarí næstu áratugina. Það yrði svo leiðinlegt fyrir kallgreyið að vera á móti öllu niðri á þingi það sem eftir er ævinnar.


Lenín var afbragðsræðumaður og bæði Steini og Bíbí hafa tekið hann sér til fyrirmyndar í ræðustól Alþingis. Ég gef hins vegar Hvell-Geira, Framsóknar-Jóni, Hveragerði og hinum Frjálsblinda Magnúsi Þór hálfa stjörnu fyrir viðleitni í þessu eldhúsi í gærkveldi. Ríkisstjórnin er greinilega fyrir löngu komin í Fallin spíta en Imba var fögur sem forðum er hún með öllum sínum kvenlega yndisþokka brosti til mín á brúnni yfir Tjörnina. Ekki komast karlanir með tærnar þar sem hún hefur háu hælana í þeim efnum, nema Steini. Þau munu því að öllu forfallalausu ganga í heilagt hjónaband í vor og biðja nú um tilfinningalegt svigrúm eftir að hafa opinberað trúlofun sína í gærkveldi.

Boðskortin hafa nú þegar verið send út og Addi Kitta Gau mun verða svaramaður Steina. Einnig einkaþjónn í sjávarútvegi ef á þarf að halda á heimilinu, þó enginn verði hann slordóni. Og Imba leyfir Steina að vera húsbóndi á sínu heimili. En að sjálfsögðu mun hún stjórna öllu í reynd, sjá um innkaup og annað á heimilinu, og eyða þar mestu fé, eins og aðrar konur gera. Á meðan dundar Steini sér í garðinum. En Addi mun, ef á þarf að halda, sjá um húsverk, afþurrkun alla og ryksog, enda vel til þess fallinn. Og ekki vill hann ráða til þess erlendar vinnukonur, þannig að hann verður að sjá um allt slíkt sjálfur.

Steini Briem (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 13:11

7 identicon

Guðfríður Lilja er náttúrlega komin með með Vinstri grænan heila en hún er varla með karlmannsheila. Til þess þyrfti hún að vera karlmaður. Konur voru síðastliðið vor 64% af nemendum Háskóla Íslands. Voru karlarnir í skólanum þar af leiðandi með kvenheila, líka karlarnir í raunvísindadeildinni sem voru um 40% af nemendum deildarinnar? Þarfnast raunvísindi ekki fyrst og fremst rökhugsunar, eins og skákin? Það þarfnast hins vegar þjálfunar að verða góður í skák og raunvísindum. Enginn verður góður í nokkrum hlut án þjálfunar og áhuga. Við höfum ekki áhuga á öllu og þurfum oft hvatningu til að verða góð í því sem við höfum áhuga á. Þessa hvatningu hafa stelpur ekki fengið í nægilega miklum mæli í skákinni og nú er talað um að hvetja þurfi karlmenn til að fara í háskóla. Flestir skákáhugamenn, bæði karlar og konur, hafa áhuga á alls kyns hlutum öðrum en skákinni og ég veit ekki til þess að Guðfríður Lilja hafi hætt að tefla, enda þótt hún hafi fengið áhuga á pólitík. Og konur í pólitík hafa varla lagt alla aðra hluti en pólitíkina á hilluna.

Við erum ekki að tala hér um líkamsburði. Í skákinni geta strákar og stelpur lært að bera virðingu fyrir hvert öðru. Þetta er góður félagsskapur, laus við drykkju og dóp, og það getur verið meiri lærdómur fólginn í því að tapa og gera mistök en að vinna allar skákir. Það á alls ekki að vera aðalatriðið. Og að brjóta heilann í skák þroskar minnið, bætir námsgetu og hjálpar til við að finna réttu leiðina að ákveðnu takmarki eða markmiði.

Steini Briem (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 14:06

8 Smámynd: Björn Heiðdal

Það er eitthvað skrítið við orðið vinstri-grænn hljómar ekki ósvipað og hægri-rauður.  En hvað sem því líður ertu söluvænlegri en Ögmundur.   Væri bara alveg til í að starfa hjá ríkinu ef þið komist í stjórn.

Björn Heiðdal, 17.3.2007 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband