Þriðjudagur, 13. mars 2007
Vanhelgi og upphlaup
Mér er misboðið að horfa upp á skrípaleikinn í kringum stjórnarskrá lýðveldisins.
Stjórnarskráin er æðstu lög landsins. Það er í stjórnarskránni sem stjórnskipan landsins er ákveðin og grundvallarréttindi borgaranna vernduð. Stjórnarskráin er okkar helgasta plagg - og hún er okkar, okkar þjóðarinnar, fólksins í landinu, en ekki tiltekinna stjórnamálamanna, fræðinga, spekúlanta eða hagsmunahópa.
Það liggur því í augum uppi að þegar gera á breytingar á stjórnarskrá þurfa þær að vera vel ígrundaðar, vandaðar og skýrar - og um þær þarf að ríkja nokkuð breið samstaða. Þær þurfa líka að vera skiljanlegar okkur venjulega fólkinu - og í anda þess sem við viljum.
Hvað er að gerast núna?
Jú, til að redda sér á bakvið pólitískt horn í sýndarmennskuupphlaupi á síðustu stundu, og til að halda líftórunni í ríkisstjórninni fram að kosningum, þá er stjórnarskrá lýðveldisins vanhelguð með forkastanlegum vinnubrögðum. Soðið er saman í hvelli útvötnuðu ákvæði og undarlegustu greinargerð. Ríkisstjórnin skal halda hvað sem það kostar. Framsókn skal fá sína andlitslyftingu og vanabundna sprikl fyrir kosningar hvað sem það kostar, Sjálfstæðisflokkur skal fá sitt fram hvað sem það kostar og kvótakerfið skal lifa hvað sem það kostar.
Það er ýmist gefið í eða dregið úr og út kemur nákvæmlega ekki neitt því að allar yfirlýsingar með einhverja merkingu dragast frá í þeirri næstu.
Yfirlýsing Sambands ungra sjálfstæðismanna í þessu máli sendir manni enn frekari hroll beint í æð - á þeim bæ virðist eiga að gefa hagsmunaaðilum auðlindina endurgjaldslaust.
Hvenær og hvernig varð það viðtekið viðhorf að þjóðin öll geti ekki átt sameiginlega eign? Hvaða endemis þráhyggja fær að vaða hér uppi um að einungis sé til séreignarréttur einstaklinga (já og auðvitað vel valinna fyrirtækja, vina og hagsmunahópa... sumir hafa meiri eignarétt en aðrir).
Er ekki nóg að búið sé að lögbinda einkavinavæðinguna, á að stjórnarskrárbinda hana líka?
Það er ýmislegt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna sem er merkingarlaust. Til dæmis loforð um að rétta af hlut fjársveltra sjávarbyggða.
Við hljótum hins vegar að geta gert þá kröfu að jafnvel þótt hinn ýmsasti fagurgali stjórnarsáttmálans hafi í raunveruleikanum reynst innihaldslaus þá hlaupi stjórnarherrar okkar ekki til og setji sýndarmennskuákvæði merkingarleysisins inn í sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins - á harðaspretti.
Þingmenn stjórnarflokkanna og ráðherrar eru meiri menn en svo. Þeir eru meiri menn en svo jafnvel þótt fylgi í skoðanakönnunum valdi þeim ugg - og vekji jafnvel Framsókn af værum blundi og margra ára meðvirkni. Þingmenn allir, sem sverja drengskaparheit við stjórnarskrá okkar, hljóta að vilja virða stjórnarskrárbundna skyldu sína.
Sem er? Til dæmis þetta:
Alþingismenn eru einungis bundnir við sannfæringu sína...
Eða er þetta ákvæði kannski bara galli í stjórnarskránni? Þarf kannski að taka sérstaklega fram að til þess að geta verið bundinn af sannfæringu sinni þá þarf einlæg sannfæring fyrst að vera til staðar?
Athugasemdir
Ég er svo hissa! hafði ekki hugmynd um að Stjórnarskrá Lýðveldisins Ísland, væri næstum eins og skeinipappír fyrir kosningar?
Var viss um að í stjórnarskrárbreytingar þyrfti a.m.k alla stjórnmálaflokka eða þjóðaratkvæðisgreiðslu?
Voðalega er ég vitlaus
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.3.2007 kl. 22:15
Er sammála mörgu. Öðru minna. Stjórnarandstæðan á sinn þátt í þessu endemis framsóknarrugli. Það er nefnilega þannig að það eru ekki bara flokkar sem standa að ríkisstjórnum á hverjum tíma sem stunda kosningbrellur.
Og svo hitt. Réttlætiskennd minni er enn stórlega misboðið með kvótakerfinu en get samt með engu móti séð hvernig hægt er að fá fram leiðréttingu. Er sanngjarnt að fólk sem stendur í útgerð og hefur greitt fyrir veiðiréttinn missi hann og hann færður til staða sem vantar veiðiréttindi? Hvaða góðu rök eru til sem réttlæta það.
Sýnist við reyndar vera ótrúlega ósammála um flest og því les ég allt sem þú skrifar með athygli. Það hjálpar. Enda heimurinn hvorki alveg svartur né hvítur.
Kv
Rögnvaldur Hreiðarsson, 13.3.2007 kl. 23:32
Vil benda ykkur á bloggið mitt í dag um "lögformlegan"þjófnað á auðlindum hafsins,sem nú á að setja í Stórnarskrá.
Kristján Pétursson, 14.3.2007 kl. 17:49
æ æ hef séð það skemmtilegra
Kalli Sveins (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.