Mánudagur, 12. mars 2007
Mega sjónskertir sjá?
Ég hugsa stundum um það hversu mikill tími fer í baráttu sem ætti ekki að þurfa að heyja.
Þannig er til dæmis áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikill tími, orka og fjármunir hafa farið í það hjá starfsmönnum sjávarútvegsráðuneytisins (og reyndar víðar) að verja hvalveiðar Íslendinga út á við (þegar ekki eru einu sinni til kaupendur að kjötinu). Einnig er áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikill tími, orka og fjármunir hafa farið í það hjá starfsmönnum utanríkisráðuneytisins (og víðar) að litla Ísland sé að brölta með fokdýra (fok, fok!) umsókn til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Svona þegar við gætum verið að gera svo margt uppbyggilegt og skapandi.
Áfram mætti telja í þessa veru. Lengi.
Sá tími, orka og fjármunir eru þó hjóm eitt miðað við það sem sumir einstaklingar og fjölskyldur okkar samfélags þurfa að leggja á sig til að knýja á um sjálfsögð mannréttindi í eigin lífi. Grundvallargildi jafnræðis allra samfélagsþegna á með réttu að vera óskorað - og við öll eigum með réttu að geta einbeitt okkur að öðru en að þurfa að berjast jafnvel heila mannsævi fyrir sjálfsögðum hlut.
En Ísland er ekki eins réttlátt og það ætti að vera.
Dæmi um þetta er hin fádæma tregða í gegnum árin við að viðurkenna táknmál sem móðurmál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, og viðlíkjandi tregða við að tryggja réttindi þeirra til fullrar þátttöku í samfélaginu með víðtækri táknmálsþjónustu og textun.
Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna þetta er ekki sjálfsagt mál, og hvers vegna fólk sem ætti einfaldlega að vera að njóta sín þarf að eyða svo mikilli orku við að berjast fyrir grundvallarréttindum og jafnræði.
Svipaða sögu má segja um íslenska menntakerfið með tilliti til blindra og sjónskertra nemenda. Öll, já öll, eigum við jafnan rétt til náms. Hvers vegna er það ekki sjálfsagt forgangsverkefni að þessum rétti sé framfylgt til hins ítrasta af hálfu stjórnvalda?
Í Morgunblaðinu í dag skrifar ritari stjórnar Blindrafélagsins þarfa og góða grein um þessi mál. Þar segir hún m.a.
"Í vor verða 24 ár síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla. Ég leyfi mér að fullyrða, og get stutt það mörgum rökum, að á þeim tíma voru námsaðstæður blindra og sjónskertra mun betri en þær eru í dag..."
Þetta er sláandi staðhæfing sem hún rökstyður með ýmsum hætti og af eigin raun. Eins og Ágústa Gunnarsdóttir bendir á þá ætti það alfarið að heyra sögunni til að blindir nemendur fái ekki lesið námsefni sitt og að sjónskert börn fái ekki að sjá á töfluna. Við erum jú á Íslandi árið 2007.
Fyrir liggja góðar og gagngerar tillögur til úrbóta í þessum málaflokkum sem stuðla að raunverulegu jafnræði til náms og sjálfstæðs lífs - fjölmörgum einstaklingum og fjölskyldum þeirra til hagsbóta. Það er bókstaflega ekkert sem ætti að þurfa að koma í veg fyrir að hrinda þessum úrbótum í framkvæmd og gera samfélagið okkar þar með örlítið betra og réttlátara.
Vilji og rétt forgangsröðun er það sem þarf. Eftir hverju er alltaf verið að bíða?
Athugasemdir
Sjónskertir meiga ekki sjá!
Konur mega ekki vera jafnar körlum
heyrnarlausir verða að vera misnotaðir...þeir heyra ekki
einstæðum mæðrum skal hjálpað með því að rífa af þeim börnin
Tannskemmdir læknast af sjálfu sér
persónuafsláttur á ekki heima í okkar jafnræðisþjóðfélagi
og fleira....
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.3.2007 kl. 19:42
Börnum er kennd enska og danska í grunnskóla en ekki íslenskt táknmál. Fatlaðir eru sérþjóðflokkur sem venjulegt fólk þarf lítið að spá í nema því sé troðið til þess. Þetta er auðvitað samfélaginu fyrir bestu. AAARRRRGGGGH!
Ps. Ofsalega er ég fegin að tannskemmdir læknast af sjálfu sér! Þetta eru fagnaðartíðindi. Takk Anna! Allt hitt vissi ég...
Laufey Ólafsdóttir, 13.3.2007 kl. 04:15
Jebb, eftir hverju er alltaf verið að bíða. Oft spurt mig þess upp á síðkastið. Voða mikið froðusnakk verið í gangi lengi. Öllum finnst að fatlaðir/blindir/heyrnarlausir eigi að hafa eins gott aðgengi að öllu eins og hægt er. Fæði og húsnæði þar á meðal. Má bara ekki kosta peninga. Helst ekki tíma heldur. Forgangsröðinin er nú bara bullandi vitlaus en kemst vonandi í betra horf um miðjan mai.
arnar valgeirsson, 13.3.2007 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.