Mánudagur, 5. febrúar 2007
Hinir nýju gúrúar Íslands?
Steve Forbes er að koma til landsins. Nýlega var slegið upp viðtali við hann og væntanlega fáum við að heyra meira af honum og sjá áður en hann hverfur á braut. Hann á að halda fyrirlestur á Hótel Nordica annað kvöld.
Ég efast ekki um að það geti verið áhugavert að hlusta á fyrirlestur Steve Forbes. En það væri notalegt að vera hlíft við að þurfa að hlusta á öfga-hægri-nýfrjálshyggju-Repúblíkana sem hefur nákvæmlega enga innsýn í íslenskt þjóðlíf (og líklega enn minni áhuga, þar af minni þekkingu) og heyra hann kveða upp Salómónsdóm um hitt og þetta er varðar Ísland og Íslendinga, Evru og stöðugleika. Sjá því slegið upp eins og hér sé spámaðurinn mættur. Svona á meðan hann hlær og er upplýstur lauslega um íslenska hagkerfið er hann búinn að afgreiða vandamálið: takið upp evru. Farísei hinna nýríku mælir.
Við ættum kannski að byrja á því að taka upp almennilega hagstjórn áður en við hlustum á Steve Forbes hinum megin á línunni. Evra, króna, dollari, rand, rupee: nefndu gjaldmiðilinn hvaða nafni sem þú vilt. Ef góð hagstjórn er ekki fyrir hendi þá er tóm tjara að líta á einn eða annan gjaldmiðil sem allsherjarlausn. En þar stendur hnífurinn kannski fastur í kúnni: við Íslendingar erum svo veik fyrir töfralausnum.
Steve Forbes er íhaldssamari og öfgafyllri en sjálfur George Bush. Hann vill sjá hina ríku verða ríkari og hann lítur á heilbrigðiskerfi fyrir alla sem argasta sósíalisma. Hann hefur verið á meðal þeirra sem afneita loftlagshlýnun (og er því í miklu uppáhaldi hjá arðránsfyrirtækjum og mengunarsóðum), hann lýsir því yfir að ef Hilary Clinton komist til valda þá þýði það hrun fyrir bandarískt hagkerfi (einmitt), hann er fylgjandi stríði við Íran (til að lækka olíuverðið) - og svo mætti lengi telja.
Og hvað hefur hann um Írak að segja? Jú, stríðið hefur vissulega dregið nokkuð úr vextinum í Bandaríkjunum og verið skaðlegt hagkerfinu í heild sinni. En blessunarlega er stríðið "samt afar lítill hluti hagkerfisins."
Það að vera öfga-hægri-Repúblikani er ekkert grín. Þá er t.d. hægt að líta á styrjöld sem mínus eða plús fyrir hagkerfið og ljúka svo máli sínu. Eru þessir gaurar hinir nýju gúrúar Íslands?
Athugasemdir
Góð samantekt enda nota tækifærissinnarnir sér þennan áróður óspart samanber Jón Magnússon í Silfrinu í gær. Seðlabankastjórarnir frá og annar áróður andDavíðsinnanna sem flytja þennan mann til landsins með ofbirtu í augunum yfir ríkidæmi hans.
Hagstjórnin er góð hér en nú þarf að laga til í því eftir innrás íslensku Forbs-anna! Það eru ýmsar leiðir til þess án þess að fara í stríð. Ekki ásaka ríkisstjórnina fyrir græðgisvæðinguna í bankakerfinu. Davíð var sá eini sem mótmælti ofurlaunum forstjóra KB banka á sínum tíma. Var það ekki virðingarvert?
Takk fyrir góða umfjölllun um þennan "peningatrúð" Forbs.
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 16:51
Það væri nú samt betra fyrir þjóðina í heild sinni að taka upp evru og fá hér meiri stöðugleika og nýja stjórn!!
Anna Benkovic (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 08:52
Hvernig væri nú að hlusta á hvað maðurinn hefur að segja í stað þess að vera með sleggjudóma um "Salómónsdóma" hans.
Ra (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 09:41
"öfga-hægri-nýfrjálshyggju-Repúblíkana"
Loksins eitthvað sem ég tel mig geta tilheyrt.
Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 09:51
Ég hugsaði nákvæmlega sama um þessa plebbalegu frétt sem birt var í fréttablaðinu. Hann hefur afar takmarkaðar upplýsingar eða þekkingu um Ísland og boðar Evru eins og að hún sé rót stöðugleika. Ég vil taka það skýrt fram að Evran er ekki trygging á stöðugleika, eins og oft er ranglega haldið fram. Eins og þú segir þá eru margir hér á landi gjarnir á að kenna einhverju einu um og aðhyllast töfralausn. Evran er samt ekkert slæm, þvert á móti mjög góð, en krónan er það líka og það magnaða er að til þess að Evran virki þá þurfum við að uppfylla viss skilyrði sem eru nákvæmlega sömu skilyrðin og við þurfum að uppfylla til þess að krónan virki vel. Það er aðhald í ríkisfjármálum.
Svo sagði hann að það ætti að reka seðlabankastjórn. Gott og vel að þeir sem stjórna seðlabankanum eru ekki yfir gagnrýni hafnir en vandamálið var síst þar á bænum, heldur agaleysi í ríkisfjármálum.
Hvað varðar bankana og ofurlaun sem J.B. nefnir hér að ofan, þá er ég algjörlega hlynntur þeim launum og hagnaði sem bankarnir hafa náð. Athuga skal hversu miklum skatttekjum bæði þessir stjórnendur og bankarnir sjálfir greiða í ríkissjóð. Sé litið á það þannig eru þessir menn hinu mestu mannvinir og styrkja velferðarkerfið. Skoðum líka hversu mikið bankarnir styrkja líknarfélög, menningarfélög, íþróttafélög, skóla og fleiri og fleiri með veglegum framlögum. Mér finnst leiðinlegt að sjá neikvæðar og ósanngjarnar umfjallanir um bankana þegar þeir svo sannarlega standa sig vel og hafa ber í huga að árangurinn er engan vegin sjálfgefinn.
Annars veit ég nú ekki hvaða hópi ég tilheyri, en frelsi og janfrétti er mér efst í huga.
A. Anderson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 17:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.