Hvers virði er hreint loft?

Okkar kynslóðar bíður það skemmtilega verkefni að svara þessari spurningu afdráttarlaust. Hvers virði er okkur hreina loftið? Er hægt að kaupa það af okkur? Fyrir hve mikið?

Við þurfum helst að svara þessu núna strax. Það er nefnilega allt morandi í kaupendum og seljendum - sem tala fyrir okkur öll. Í peningagræðginni sem við öndum að okkur frá morgni til kvölds gleymist stundum að það er til annars konar andríki. Andrúmsloft jarðar er eitt þeirra. Andrúmsloftið sem allt lífríki jarðar er fætt til að anda að sér er að verða fégræðgi okkar að bráð. Hvað ætlum við að gera? 

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Hárfínn þráður er á milli lífs og dauða - og alls hins. Það á við um svo ótal margt: allt það dýrmætasta í lífinu er brothætt og það þarf að berjast fyrir því. 

Allt það dýrmætasta í lífinu er heldur ekki til sölu. Eða ætti að minnsta kosti ekki að vera það.

Hverju erum við tilbúin til að fórna fyrir 400 milljónir eða 800? Milljarð eða 1,4?

Einhvern veginn höfum við Íslendingar vanist þeirri hugsun að hreint loft og stórbrotin náttúra sé einhvers konar náttúrulögmál sem muni fylgja okkur um ókomna tíð, sama hvernig við hegðum okkur. Það er langt í frá. Í þeirri flóðbylgju mengunar, hlýnandi andrúmslofts og eyðileggingar sem herjar á lífríki og náttúru jarðar höfum við Íslendingar nú gullið tækifæri til að breyta til og vera öðruvísi. Við getum orðið öðrum í heiminum fyrirmynd.

Í öllum okkar vellystingum búum við að þeim lúxus að geta valið. Okkar kynslóð getur markað brautina til góðs.

En til að svo megi verða þurfum við auðvitað að leita inn á við. Leita í ríkidæmi andans - og treysta á það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allir vildu Lilju kveðið hafa (í kútinn).

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 20:50

2 Smámynd: arnar valgeirsson

"allt það dýrmætasta í lífinu er brothætt og það þarf að berjast fyrir því". Algerlega hárrétt. Húsavík og Þorlákshöfn seld. Hafnarfjörður til sölu.

Við erum aldeilis fín fyrirmynd fyrir fátæk Afríkuríki sem selja náttúruna, eins og við. Þau eiga bara engan pening en við erum að kaupa London og Köben.  Æi, afhverju finnum við ekki eitthvað annað en álver til að planta niður út um -nú- grænar grundir.

arnar valgeirsson, 3.2.2007 kl. 21:35

3 identicon

Maður verður nú var við mengunina sem er í dag yfir sumartíman. Þegar mengað loftið kemur frá meginlandi Evrópu.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 05:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband