Tvíburaturnar hrannast upp

Stríðið í Írak kostar daglega um 80-100 venjulega Íraka lífið. Á síðasta ári voru meira en 34.000 Írakar myrtir.

Hversu margir tvíburaturnar eru það?

Það sem hefur átt sér stað í nafni Bandaríkja Bush - og allra okkar hinna sem hlýddum eins og rakkar - er hreinn hryllingur. Viðurstyggileg ódæðisverk eru framin undir fölsku yfirskini - og enn erum við hin viljugu.

En skálmöldin í Írak hefur ekki bara tekið líf frá saklausu fólki. Enginn veit hvað næsti dagur ber í skauti sér. Um fjörtíu prósent menntastétta - og þeirra sem efni hafa á - hafa flúið land og meira en hálf miljón Íraka er orðin að flóttamönnum í eigin landi. Innviðir þjóðlífsins eru í rúst. Litlum stúlkum er nauðgað, misþyrmt, þær pyntaðar og drepnar - og látnar rotna á víðavangi.

Hryðjuverkamönnum vex fiskur um hrygg.

Ætla Íslendingar aftur að kjósa ríkisstjórnarflokkana sem studdu innrásina í Írak - þrátt fyrir margþætt og ítarleg varnaðarorð úr öllum áttum?

Hvað þarf að gerast til að við söðlum um?

Vandlætingarhrollur fór um Vesturlönd eitt augnablik þegar myndir af aftöku Saddam Hussein birtust. Eins og blaðamaðurinn Christian Caryl hefur bent á þá fór tiltölulega minna fyrir þessum hrolli hjá flestum venjulegum Írökum sjálfum: þeir eru of uppteknir við að reyna að bjarga eigin lífi - forða börnum sínum og fjölskyldum frá pyntingum og aftöku.

En þetta er víst ekki í fréttum í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég vil heilshuga tak undir það sem þú segir og leggja áherslu á þá sannfæringu mína að annarleg öfl, standa að baki þessum fjöldamorðum og yfirgangi bandamanna og er ekki séð fyrir endann á því. Við getum ekki gert okkur samsek í þessum viðbjóði, því Bandaríkjamenn eru ekki hættir í útþenslustefnu sinni. Það gerist varla fyrr en öll ógn og andstaða gegn Ísrael er þurrkuð út. Þessir svonefndu brautryðjendur lýðræðis hafa virt öll alþjóðalog og sáttmála að vettugi því tilgangurinn helgar meðölin á þeim bæ. Réttur borgara og réttur þjóða til sjálfstæðrar stjórnskipunnar og jafnvel trúfrelsi er fótum troðið.  Ég bendi þér á að fara inn á Google video og kíkja á heimildamyndir á borð við "Loose Change" og "Iraq for sale" Einnig er vert að komast yfir heimildamyndina "Jesus Camp" sem sýnir svolítið hina hliðina á peningnum í samhengi trúarofsækis.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2007 kl. 16:58

2 identicon

Dagleg hryðjuverk og fjöldamorð í Írak eru ekki gerð í nafni Bandaríkjanna eða þeirra bandamanna heldur í nafni trúar og afturhalds.  Þeir sem fremja ódæðisverkin njóta ekki stuðnings bandamanna heldur mun fremur nágrannaríkjanna Írans og Sýrlands.  Bandamenn eru í Írak í umboði Sameinuðu Þjóðanna að ósk írösku ríkisstjórnarinnar og þeirra verkefni fela ekki í sér hryðjuverk heldur aðstoð við uppbyggingu landsins.  Þó það verkefni gangi alls ekki vel og Bandaríkjamenn hafi gert mörg dýrkeypt mistök er fráleitt að álykta að þeir standi fyrir glæpaverkunum eða þau njóti þeirra velþóknunar eða séu gerð í þeirra nafni.  Ábyrgðin á glæpaverkum hlýtur fyrst og fremst að hvíla á þeim sem verkin fremur eða hvetur til þeirra ekki satt ?

Þröstur Þórsson (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 17:28

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sammála þessu hjá Þresti Þórssyni, sbr. innlegg mitt í gær, 19. jan., á þessa vefsíðu.

Jón Valur Jensson, 20.1.2007 kl. 21:05

4 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það eru sérstæða skoðanir sem Þröstur Þórsson opinberar hér að ofan. Þó skoðanafrelsi ríki þá þykir ekki við hæfi að hagræða sannleika eða staðreyndum til að aðstæður hæfi skoðunum. BNA og bandalag hinna viljugu þjóða réðust inn í Írak í óþökk Sameinuðu þjóðanna. Innrásargengið sprengdi Írak aftur til miðalda og sundruðu öllum innviðum þjóðarinnar. Allt sem þar gerist, frá innrásardegi að telja, er á ábyrgð innrásargengisins því það er þeirra hlutverk að tryggja öryggi hins almenna borgara. Það eru skyldur sem innrásargengið axlaði þegar það réðist, ólöglega, inn í landið.

Sigurður Ingi Jónsson, 20.1.2007 kl. 21:15

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hljómar kannski vel, sérstaklega ef við höfum heyrt það nógu lengi -- og ekki hefur farið hjá því. En það er t.d. rugl, að Írak hafi verið sprengt aftur til miðalda og öllum innviðum þjóðarinnar sundrað. Það er rétt, að gæzlusveitirnar hafa það hlutverk að tryggja öryggi hins almenna borgara, rétt eins og lögreglan hefur það hlutverk hjá okkur að gæta almannafriðar. En ef 100 partýgengi gera allt vitlaust út um allan bæ og einungis tekst að bæla niður ólætin í 15 þeirra, ætti Sigurður Ingi þá að kenna lögreglunni um allt saman? Og ég spyr hann í alvöru: Liggur ekki siðferðisleg ábyrgð á þeim, sem skipuleggja hryðjuverk og senda út liðsmenn sína, sem og á þeim sem framkvæma þau, t.d. ef öfgasinnaður súnníti ákveður að sprengja upp hóp sjíta, þar á meðal fjölda barna? Ef svo er, hvers vegna þessar sífelldu fordæmingar á þeim, sem eru þarna til að gæta öryggis borgaranna og tekst það í allmörgum tilvikum? Hvers vegna leggja vinstri-líberalar Íslands svona mikla áherzlu á þessi dráp Íraka á Írökum, sem þeir kenna þó Bandaríkjamönnum, á meðan þeir minnast t.d. aldrei á dráp Alsírbúa á Alsírmönnum, fjöldadráp (um 150.000) sem eru sennilega orðin a.m.k. tvöföld á við allt mannfallið í Írak frá 2003? Já, hvers vegna?

Jón Valur Jensson, 20.1.2007 kl. 22:01

6 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það er athyglisverður hugarheimur sem Jens Valur leyfir okkur að gægjast inn í með skrifum sínum. Rökin virðast vera á þessa leið: Ef vondir menn misnota aðstöðu sem upp er komin, þá eru þeir sem skópu aðstöðuna skuldlausir gerða sinna. Ef voðaverk eru gagnrýnd á einum stað þá er gagnrýnin marklaus nema voðaverk séu gagnrýnd allsstaðar í sömu andrá. Þeir sem gagnrýna voðaverk sem framkvæmd eru af BNA eru vinstri-liberalar.

BNA og bandalag hinna viljugu þjóða réðust ólöglega inn í land á upplognum forsendum. Þar leystu þeir upp ríkisstjórn, her og lögreglu ásamt því að rústa öllum almannafjarskiptum svo sem sím-, sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Þessu til viðbótar eyðilögðu þeir raf- og vatnsveitur. Landið er nú hernumið af her sem stjórnað er af ríkisstjórn sem hefur lýst því yfir að meðal markmiða innrásarinnar sé að innleiða vestræn gildi í landinu. Innrásarherinn hefur brotið öll hugsanleg mannréttindi. Hneppt fólk í fangelsi og haldið því án dóms og laga. Pyntað fanga sína og svívirt. Svona mætti lengi telja.

Hin margrómaða "uppbygging" í Írak er grátbrosleg. Í landinu er borgarastyrjöld. Það er svo einfalt. BNA og hinar viljugu þjóðir bera ábyrgð á ástandinu því það er sprottið úr aðstæðum sem þeir skópu. Í þessu felst ekki fullyrðing þess efnis að morðingjar og misyndismenn sé ekki ábyrgir gerða sinna.

Ég geri ekki ráð fyrir því að þessi orð mín verði til þess að Jens Valur segi upp sem fánaberi heimslögreglunnar í BNA, þó vona ég að þau verði til þess að fólk skoði ástandið í Írak með gagnrýnum augum og geri sér grein fyrir því hverskonar glæpur það var að ráðast inn í landið og hversu miklar hörmungar hafa hlotist af því.

Sigurður Ingi Jónsson, 20.1.2007 kl. 23:41

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Voðaverkin í Írak eru ekki framkvæmd af USA, heldur Írökum umfram allt, einnig af öðrum islamistum. "Ef voðaverk eru gagnrýnd á einum stað þá er gagnrýnin marklaus nema voðaverk séu gagnrýnd allsstaðar í sömu andrá," segir Sigurður. En vel að merkja gagnrýnir hann EKKI voðaverk öfgamanna Írakanna, ekki frekar en hliðstæð ódæðisverk í Alsír. Þeir íslenzku gagnrýnendur, sem hafa haft svo hátt hér á síðustu árum, voru heldur hljóðari, þegar Sovétmenn réðust inn í Afganistan um jólin 1979 og héldu þjóðinni hernuminni í rúman áratug, skópu þar mesta flóttamannavandamál þess tíma í heiminum (5-6 milljónir Afgana landflótta) og blóðugt stríð, þar sem um ein og hálf milljón manna lét lífið. Nei, þá mátti þegja! Þetta er því sérvalin gagnrýni, eins konar framhaldslíf Bandaríkjaandúðar róttækustu manna á Kaldastríðsárunum. Eða ætli það sé tilviljun, hve Vinstrigrænir og gamlir Allaballar í Samfylkingunni hafa verið virkir í allri þessari miklu gagnrýni á síðustu árum? Spyrjið ykkur sjálf.

Ég er ekki málsvari neinnar heimslögreglu, enda eru miklu fleiri ríki en Bandaríkin sem hafa það hlutverk (sem þeim var lögformlega fengið af Öryggisráði SÞ) að halda uppi friði í Írak. En mér leiðist þessi hrikalega einsýni vinstrimanna og þeirra, sem þeim hefur tekizt að blekkja. Hér er t.d.minnzt á pyntingar Bandaríkjamanna, en þær voru flestar barnaleikur miðað við hinar, sem bæði Saddam lét beita í Abu Ghraib og öfgamennirnir beita nú, áður en þeir drepa gísla sína -- sleppa að vísu sumum, ef þeir falla í "rétta" kategóriu, en leika hina þeim mun verr -- menn hafa verið að finnast út um allt, hræðilega limlestir, bæði hermenn öryggisliðsins, íraskir lögreglumenn og almennir borgarar -- og enn þegir siðferðishetjan Sigurður Ingi! -- Hann viðurkennir að vísu hluta gagnrýni minnar með því að skrifa hér ofar: "Í þessu felst ekki fullyrðing þess efnis að morðingjar og misyndismenn sé ekki ábyrgir gerða sinna." En þetta var líka allt og sumt, virtist nægja honum, hann lætur þá ekki heyra það, þarf greinilega ekki að eyða miklu púðri í slík tugþúsunda raðmorð á þessari 21. öld. Er ekki allt í lagi hjá þessari RÚV-hlustunargjörnu þjóð og háværustu málpípum hennar, eða hvað?

Jón Valur Jensson, 21.1.2007 kl. 00:33

8 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það er ástæðulaust að elta ólar við Jens Val, enda mér ósárt að vita af því að hann muni halda uppi vörnum fyrir stríðsglæpi BNA. Við vinstri-liberal siðferðishetjur erum svo umburðarlyndar.

Sigurður Ingi Jónsson, 21.1.2007 kl. 00:54

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég held ekki uppi vörnum fyrir neina stríðsglæpi, hvorki í Írak né annars staðar.

Jón Valur Jensson, 21.1.2007 kl. 00:58

10 identicon

Menn geta auðvitað gagnrýnt BNA fyrir það sem þeir hafa gert en að segja að ofbeldisverkin séu framin í þeirra nafni er augljóslega rangt a.m.k. þessar daglegu sprengingar, mannrán, nauðganir osfrv..  Hvað meina Lilja líka með því að segja að viðurstyggileg ódæðisverk séu framin undir fölsku yfirskini ?  Hvaða ódæðisverk er hún að tala um, hvert er hið falska yfirskin og hver notar það ?  Það er svo annað mál hver sé munurinn á fölsku og ósviknu yfirskini.  Það er svo engin furða að almenningur þar austur frá kippi sér ekki upp við aftöku Saddams.  Fólkið er auðvitað alvant aftökum og manndrápum.  Mér fannst hins vegar sérkennilegt hversu mikla vandlætingu aftaka Saddams olli hjá sumum réttþenkjandi vesturlandabúum.  Maður fékk á tilfinninguna að fólki hafi þótt aftaka Saddams á einhvern hátt ámælisverðari en aftökur venjulegra glæpamanna, sem eru algengar í mörgum ríkjum enda eru dauðarefsingar víðast stundaðar utan Evrópu og þykja sjálfsagðar.

Þröstur Þórsson (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 01:02

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Enginn misskilji orð mín hér ofar, þar sem ég bar saman pyntingar á stjórnartíma Saddams og á vegum hryðjuverkaaflanna annars vegar og Bandaríkjamanna hins vegar. Fjarri fer því, að ég vilji gera lítið úr þeim dæmum, sem kunn eru um illa meðferð og jafnvel pyntingar fanga í Abu Ghraib og líkllega víðar undir bandarískri herstjórn. Ég er mér ennfremur fullkomlega meðvitaður um þá staðreynd, að til eru einangruð dæmi um að bandarískir hermenn hafi beinlínis drepið viljandi (og a.m.k. einu sinni í hefndarskyni vegna fallins Bandaríkjamanns) vopnlaust fólk. Þykir mér afar eðlilegt, að réttað sé yfir þeim seku í slíkum tilfellum í refsihörðum herrétti. A.m.k. eitt slíkt mál er til umfjöllunar hjá bandarískum herdómstól.

Jón Valur Jensson, 21.1.2007 kl. 10:23

12 identicon

okey, þið eruð hámenntaðari en ég og notist greinilega ekki við orðaforða sem árgangur "83 er vanur að notast við því sumt skil ég og sumt er ég ekkert að botna í... en ég fór að forvitnast mikið um þessar svokölluðu "hryðjuverkaárásir" á Bandaríkjamenn eftir að félagi frá Kanada fór að upplýsa mig um stöðu mála. Og það sem ég hef komist að frá vísendamönnum og öðrum sem rannsakað hafa þessa atburði í bak og fyrir (allt upplýst frá netinu) er að Bandaríkjamenn skipulöggðu þessar árásir sjálfir til að hafa ástæðu til að ráðast inní Afganistan, ólöglega, og til hvers? Til að fá dópflæði inní landið því þeir græddu svo mikið á sölu fíkniefna (trilljónir dollara) og ekki máttu þeir við því að missa það. Svo réðust þeir inní Írak til að fá alla þá olíu sem þeir vildu (þess má geta að 90% olíu er að finna í Írak og nágrenni). Þessar árásir voru meðal annars gerðar til þess að hræða Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir til þess að sannfæra heiminn um að ógn hryðjuverkamanna er til, svo að Bush geti látið samþykkja skjöl sem kallast "citizen act" sem tekur í burtu restina af frelsi Bandaríkjamanna (þeir geta handtekið menn, leitað í húsum o.fl án þess að gefa skýringu ástæðunnar nema að hann sé grunaður um hryðjuverkastarfsemi, sem gefur Bush fulla stjórn yfir þjóðinni).

1)  Byggingarnar voru byggða sérstaklega til að haldast í mikilli vinhviðu og flugslys . (þannig að byggingin er byggð þannig að ef flugvél myndi fljúga á bygginguna þá væri það eins og að stinga pensil í gegnum flugnanet)  

2) Turnarnir eru einu skýjaklúfarnir sem hafa hrunið út af eldi (eða svo vill ríkistjórnin halda fram) þó svo að þeir hafi vitnisburð fyrir að aðrir skýjakljúfar hafa brunnið til kaldrakola með miklu meiri hita en hafa samt aldrei hrundið eins og gerðist með tvíburaturnana.

3) Byggingarnar hrundu á 10sek. hraða alveg til grunna eins og spilaborg sem er eðlisfræðilega ómögulegt, nema að byggingin hafi verið rifið niður af völdum sprenginga.

4) Ríkisstjórnin tilkynnir að loka niðurstaða rannsóknar á hruni bygginganna hafi verið vegna þess að of mikill hiti í brunanum hafi orðið til þess að stálið bráðnaði og lét bygginguna falla saman... En eldsneyti flugvélarinnar var ekki nóg til að bræða stálið og til eru upptökur af fólki sem stendur í gati eftir flugvélina og heldur í stálbitana sem halda byggingunni saman og aðeins reykur kemur út úr gati byggingarinnar sem sannar það að ekki hafi verið nægur hiti til að bræða stálið.

5) Ríkisstjórnin útskýrir hrunið sem "pancakes-effect" sem þýðir að hver hæð hafi hrunið útaf þyngd hverrar annarra sem gerir það eðlisfræðislega ómögulegt því það myndi taka hverja hæð c.a 1 sek. að falla og það myndi gera í kringum 2 mín. að falla til jarðar. En til að minna ykkur á að byggingin féll á 10sek. 

 6) Byggingin féll beint niður og alla leið niðrí kjallara, skildi ekkert eftir sig nema stálbita og steypuduft en eyðilaggði nánast ekkert í kring nema eina byggingu sem kemur til sögunnar á eftir. Sem segir að þetta hafi verið mjög skipulagt gjöreyðingarverk.

7) Allt stálið var silgt út úr landinu til að bræða strax svo að engin sönnunargöng yrðu eftir, það virðist vera sem stálið hafi verið sprengt á hverri hæð svo það yrði auðveldara að setja uppá vörubíl og flytja það burt af staðnum.

8) Hin byggingin sem skemmdist var World trade center 7, í þeirri byggingu var CIA (central intelligence agency) var til strafa, þar er talið að áránin hafi verið skipulöggð. Þessi bygging var ekki næst  tvíburaturnúnum en samt var þetta eina byggingin sem skemmdist eftir fall turnanna, hún skemmdist ekki aðeins heldur hrundi hún líka niður á sama hátt og tvíburaturnarnir. Loka niðurstaða var sú að byggingin hafi hrunið vegna braks sem flaug úr turnunum tvemur og elds sem kom upp eftir hrun turnann sem gerir það að 3ju byggingunni í sögunni sem hrynur alveg niður til grunna á þennan hátt vegna elds (hinir tveir voru World Trade Center 1 og 2). Og vegna hruns World Trade Center 7 þá eyðilöggðust öll sönnunargögn um glæpsamlega skipulaggningu á hruni turnanna 3ja.

Ég get komið með endalausar staðreyndir um þetta mál en ég vil hér með loka minni umræðu með því að segja að árásin á Pentagon var partur af þessari svokölluðu skipulaggningu þeirra, Flug númer 93 brotlennti aldrei eins og þeir vildu halda fram.

 Eins og þetta lítur út fyrir mig þá erum við að horfast í augu við miklu stærra vandamál en stríðið í Írak því Bush-fjölskyldan og Bandaríska-ríkistjórnin er að reyna að búa til "new world order". Og stríðið í Afganistan og Írak er bara byrjunin.

p.s: Bush og co eru ekkert skárri en Saddam, Hitler og Stallin, við erum ekki bara að tala um Bandaríkin sem þjóð heldur erum við að ræða um heila haug af bankamönnum, lögmönnum og stjórnarmönnum sem koma sama í leynilegu "bræðrarfélagi"  og reyna að stjórna heiminum.

Díana (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 15:24

13 Smámynd: Kristján Pétursson

Góð grein hjá þér Guðfríður Lilja.Bush ásamt sínu stjórnunarliði hafa valdið meiri hörmungum í heiminum en nokkurt annað ríki.Að ríkisstjórnin okkar skuli enn vera tengd Írakstríðunu er þeim til ævarandi skammar. 

Kristján Pétursson, 21.1.2007 kl. 21:09

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þið eruð góð í því að toppa hvort annað í þessum tveimur síðustu klausum. Bush annaðhvort jafnslæmur og Hitler og Stalín eða jafnvel verri !! Lengra verður, held ég, ekki komizt í umræðunni, þið eigið hér greinilega metið, og með það fer ég.

Jón Valur Jensson, 21.1.2007 kl. 22:12

15 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það eru gömul og ný sannindi að enginn verður hvítari á að sverta aðra.  Þannig seilist  Jón Valur Jensson um hurðina til lokunnar í tilraun til réttlætingar á helför "friðargæsluliðanna" í Írak, með því að benda á 5-6 milljón manna flóttamannavanda sem skapaðist af því að Sovétmenn réðust inn í Afganistan og USA vopnaði Osama Bin Laden til kröftugrar andstöðu. Ekki veit ég hvað Jón hefur fyrir sér í því að það sé betra að vera pyntaður af bandarískum friðargæsluliðum en þrælum Saddams? Það hlýtur að vera tæknilega erfitt að ganga nær fórnarlömbunum. Eða hvað? 

Sigurður Þórðarson, 22.1.2007 kl. 00:43

16 Smámynd: Magnús Jónsson

Þessi hryllingur er fyrir löngu kominn út fyrir allan þjófabálk. Mér finnst að sýna eigi hryllinginn í sjónvarpi allra landsmanna RÚV, það er alvöru myndir að sundurtættum búkum, nauðguðum líku, og rotnandi líkamspörtum venjulegs fólks sem gerði ekkert saknæmt annað en að fæðast í írak.  Þá getur fólk sem valdi að kjósa þá flokka sem stóðu fyrir þessum viðbjóði (í nafni íslensku þjóðarinnar) og vegið og metið eigin gerðir fyrir næstu kosningar.  Ég trúi ekki að fólki hér á íslandi sé sama. 

Magnús Jónsson, 22.1.2007 kl. 12:15

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér er Sigurður að misskilja hlutina, og ekki skal ég lá honum það, hjá mörgum rennur þetta allt saman í einn graut og hann ólystugan -- og talinn meintum kokki, Bandaríkjunum, sízt til sóma. En skoðum þetta aðeins betur.

Umræða mín hér á síðunni fjallar ekki um innrásina í Írak árið 2003. Hún tekur ekkert á því, hvort sú innrás hafi verið réttlætanleg, lögleg eður ei. Við erum að ræða hér það ástand, sem ríkt hefur eftir að Bandaríkjamönnum var falið það af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að hafa yfirumsjón með því, að öryggis Íraksborgara yrði gætt, friðar á svæðinu. Það umboð er nýlega endurnýjað og hefur líka verið í sátt og samvinnu við þá stjórn Íraks, sem þing þess styður, þing sem kosið var til með eðlilegum hætti að dómi Sameinuðu þjóðanna.

Að tala um "helför "friðargæsluliðanna" í Írak"," ef átt er við tímabilið frá 2004 til nú, þ.e. þetta síðarnefnda tímabil, sem ég var að ræða, en ekki innrásina sjálfa, er að mínu mati ofbrúkun þess orðs. "Helför" er hugtak sem réttilega var notað um milljónadráp Gyðinga í ríki nazismans. Þeir, sem umboð hafa frá SÞ til gæzlu á svæðinu, hafa ekki framið neitt þjóðarmorð né stundað þar massíf hryðjuverk, þótt slík ódæðisverk hafi vissulega verið stunduð þar í stórum stíl einmitt á þessu tímabili. En beina og óskipta sök á þeim hrikalegu raðmorðum hafa uppreisnarörflin borið, þeir sem kjósa að ráðast, í fullkomnu trássi við ákvæði Genfarsáttmálans, á saklausa, almenna borgara. Hafa Bandaríkjamenn stundað þar slíkt í stórum stíl á þessum árum? Nei, sem betur fer er þeim ætlað að lúta bæði heraga og alþjóðlegum skuldbindingum og eru undir auga fréttamanna, og ef út af ber, eiga hermenn þeirra réttilega yfir höfði sér, að herréttur dæmi þá til refsingar, en hryðjuverkasamtökin refsa ekki eigin mönnum á þann hátt, heldur etja þeim beint út á foraðið. Sérðu ekki muninn á þessu tvennu, Sigurður minn?

"Ekki veit ég hvað Jón hefur fyrir sér í því að það sé betra að vera pyntaður af bandarískum friðargæsluliðum en þrælum Saddams?" segir Sigurður enn. Sama pyntingaraðferð hlýtur auðvitað að vera jafnslæm í báðum tilvikum, ætli við séum ekki sammála um það? En ég veitti því eftirtekt, að þegar talað var í íslenzkum blöðum um "pyntingar" Bandaríkjamanna á föngum í Abu Ghraib-fangelsinu, þá var oft talað um "physical abuse" eða "mistreatment" í erlendum heimildum fremur en "torture". Og lesið hef ég mér til um þessi mál, bæði í skýrslum Amnesty International um pyntingarnar í Abu Ghraib og víðar á stjórnarárum Saddams, um það sem gerðist eftir yfirtöku bandarískra á því fangelsi og svo það sem hryðjuverkaöflin hafa verið að gera við gísla sína á síðustu árum, og þar er sannarlega ólíku saman að jafna. Um fyrsta málið, pyntingarstarfsemi Saddams, skrifaði ég kjallaragrein í DV, þar sem ég afsannaði fullyrðingar Jónasar Kristjánssonar ritstjóra, sem gert hafði meira úr vonzkuverkum Bandaríkjamanna en pyntingarsveita Saddams, og gaf ég þar ýmis dæmi og lýsingar úr skýrslum AI, sem myndu hjálpa þér til að átta þig á því, hvar landið liggur í raun. Eins og fram kemur í máli mínu hér ofar, dettur mér ekki í hug að réttlæta pyntingar Bandaríkjamanna á föngum, en í mörgum tilvikanna var langtíma svipting svefns og ógn af óðum hundum meðal þess versta, sem þar gerðist, en ekkert veit ég um, sem jafnist á við þær hrikalegu misþyrmingar sem margir gíslar súnníta og/eða al-Qaída-manna hafa þurft að sæta. Hversu mjög sem þú vilt álasa Bandaríkjamönnum fyrir innrásina í Írak, skaltu halda þessum hlutum aðskildum og skoða hvert tilvik fyrir sig, og þá held ég að þú munir í allri sanngirni komast að líkri niðurstöðu og ég um tímann frá 2004 til okkar daga.

Jón Valur Jensson, 22.1.2007 kl. 12:29

18 identicon

Það er kannski ekki vinnandi vegur, en ég ætla samt að reyna að koma Jóni Vali í skilning um það hvers vegna Bandaríkin og fylgiríki þeirra bera ábyrgð á hinu skelfilega ástandi í Írak og öllum þeim hörmungum sem íraska þjóðin hefur mátt þola á undangengnum árum:

 

1. Í skjóli pólitísks stuðnings Íslands og fleiri ríkja réðust Bandaríkin ásamt fleirum á Írak í mars 2003 þrátt fyrir að maður hefði gengið undir manns hönd við að reyna að koma vitinu fyrir hina vígfúsu. Fjölmargir sérfræðingar í málefnum Íraks höfðu bent á að innrásin myndi ekki hafa neitt gott í för með sér en leiða þess í stað til gríðarlegra blóðsúthellinga og mannskæðra átaka milli andstæðra fylkinga í Írak.

 

2. Þessar hrakspár rættust eins og við var að búast. Það framferði Bandaríkjanna og fleiri ríkja að haga sér eins og fíll í postulínsbúð leiddi hræðilegar hörmungar yfir írösku þjóðina og að sjálfsögðu bera öll þessi ríki sína ábyrgð á þessum hörmungum. Það er vægast sagt mjög barnalegt að líta svo á að þau séu með fullkomlega hreinan skjöld vegna þess að aðrir skipuleggja og fremja ofbeldisverkin. Þeir sem hella olíu á eldinn með heimskulegum, vanhugsuðum og þar á ofan kolólegum aðgerðum bera auðvitað sína ábyrgð.

 

3. Ekki aðeins hafa Bandaríkin og fylgiríki þeirra kynt undir ófriðarbálinu sem nú geisar í Írak. Þau hafa líka sjálf drepið fjölda Íraka með hernaðaraðgerðum sínum. Þeir eru ekki ófáir Írakarnir sem látist hafa fyrir kúlum og sprengjum innrásarliðsins og út í hött að láta sem svo að í Írak séu aðeins Írakar að drepa Íraka.

 

Að lokum – þar sem Jón Valur minnist á Afganistan – vil ég vekja á því athygli að Bandaríkin bera þunga ábyrgð á hinum mannskæðu átökum þar og áttu sjálf heilmikinn þátt í tildrögum þeirra rétt eins og Sovétríkin. Þau studdu við afturhaldssamar skæruliðahreyfingar í Afganistan gagngert í því skyni að lokka Sovétríkin til innrásar. Þetta hefur fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Jimmys Carters Bandaríkjaforseta játað í viðtali við franska blaðið Le Nouvel Observateur.

 

Sjá nánar hér:

http://www.mir.is/index.php?grein=527&c=3

Þórður Sveinsson (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 20:49

19 identicon

Það er stundum erfitt að vera einn á móti öllum, en Jón Valur er stór í sniði, bæði á sál og líkama, og ferst þetta vel úr hendi að benda ykkur lakar innrættum á staðreyndir og samhengi hlutanna. Þórður Sveinsson sýnist mér hafa sett Íslandsmet í dómgreindarleysi, er hann segir Bandaríkin hafa lokkað Sovétríkin sálugu til innrásar í Afganistan.Æ Æ. Mikið mega Kanarnir hafa á samviskunni!!! 

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband