Færsluflokkur: Bloggar

Herdís Egils og aðrir góðir gestir

Mæli með þessu viðtali við Herdísi Egilsdóttur í þættinum

Stjörnukíkir - Listnám og barnamenning á Íslandi

Herdís mælir af visku og hlýju og ég er svo innilega sammála henni. Ég hugsa einmitt stundum um það hvort ég eigi ekki að hætta öllu öðru og gerast kennari. Er það ekki eitt besta starf sem hægt er að hugsa sér - að miðla, blása anda í brjóst, hlúa að, hvetja?!  

Óskiljanlegt af hverju þetta starf er ekki betur metið - óskiljanlegt! Hvaða hlutverki gegna kennarar í samfélagi þar sem börn eyða lunganu úr deginum í skólum og allir eru á eilífum hlaupum?

Í þættinum eru líka fleiri góðir gestir sem segja sitt hvað skemmtilegt. Gaman til dæmis að heyra Benedikt Erlingsson segja frá afa sínum og skákinni... svo eru krakkarnir í þættinum náttúrulega yndi.

Gott útvarp er gulli betra.


Uppskipting Landsvirkjunar: fyrsta skref til einkavæðingar?

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur alvarlegar spurningar vakna við þær fréttir að nú eigi að kljúfa Landsvirkjun í tvö fyrirtæki, annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Landsvirkjun Power ehf. Með þessu sé verið að búa til tvo forstjórastóla í stað eins og færa hluta af umsvifum fyrirtækisins, ákvarðanir og verkefni, fjær eigendum, þ.e.a.s. almenningi.  Aðhald og eftirlit kjörinna fulltrúa virðist með þessu verða takmarkað enn frekar en áður jafnvel þótt í hlut eigi einokunarrisi íslensks orkumarkaðar í 100% eigu almennings. Er þó svo illa komið nú þegar að fjármálaráðherra skipar einn stjórn Landsvirkjunar í stað þess að hún sé þingkjörin og  komi frá sveitafélögum eins og áður var.

Við þessar breytingar mun upplýsingagjöf „ehf.“-hluta fyrirtækisins væntanlega skerðast og viðbúið er að reynt verði að undanþiggja þann hluta starfseminnar ákvæðum upplýsingalaga og stjórnsýslulaga. Einnig hefur þetta áhrif á réttarstöðu starfsmanna. Með LV Power ehf. virðist ekki í reynd verið að afmarka áhættuna heldur þvert á móti blanda saman verkefnum innan lands og erlendis með tilheyrandi áhættu. 8 milljarða heimanmundur, frá fyrirtæki með ríkisábyrgð á öllum sínum lánum, er settur inn í lokað fyrirtæki sem á að vera í áhætturekstri en hefur um leið með höndum alla rannsóknavinnu, undirbúning og umsjón með framkvæmdum hérlendis.

Það er athyglisvert að þessum gjörningi er hampað sem hluta af og beinlínis vísað til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Það helsta sem þar kemur fram varðandi orkumál er eftirfarandi:

 “Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.“

Ber að túlka þetta svo að til standi að hleypa einkafjármagninu inn í framkvæmdir hér innan lands einnig, þar eð LV Power virðist jöfnum höndum eiga að annast verkefni hérlendis og erlendis?

Þingflokkur VG varar sterklega við þessum áformum og fer fram á frekari útskýringar á málinu, bendir á að lagaumhverfi orkufyrirtækjanna kunni að taka breytingum á næstu misserum, spyr hvort það sé tilviljun að þessi áform eru kynnt um leið og Alþingi hefur lokið störfum fyrir jól og minnir á að til þess eru vítin að varast þau, sbr. OR/REI/GGE málið.


Í gegnum daginn

Johnny Cash brá sér á fóninn hjá mér í dag og leiddi mig ljúflega í gegnum uppsafnaða þreytu ("úrvindu!") síðustu daga og vikna:

I tell ya I´ve fought tougher men

But I really can´t remember when

He kicked like a mule and he bit like a crocodile...

...I got all choked up and I threw down my gun

And I called him my pa and he called me his son

And I came away with a different point of view... 

San Quentin I hate every inch of you!

You´ve cut me and have scarred me thru and thru...

San Quentin what good do you think you do?...

...The taste of love is sweet

when hearts like ours meet

I fell for you like a child

oh but the fire went wild...

Og svo framvegis. Kemur manni léttilega í gegnum hvaða dag sem er. Kíkið til dæmis á hann hér. Hrikalega sætur. Eða hér í San Quentin fangelsinu.

Kannski ég horfi aftur á "Walk the Line" með spúsu minni seint í kvöld. Kemur manni ábyggilega í gegnum hvaða nótt sem er.


Álag jólanna


Umburðarlyndisfasismi

Er nú verið að segja okkur í alvöru að íslenskt samfélagi hrjáist af "umburðarlyndisfasisma"?

Er verið að segja okkur að við hrjáumst af "umburðarlyndisfasisma" í garð kynferðisglæpa? I garð fátæktar, stéttaskiptingar, misréttis, opinberra spunasagna?

Nei, svo er víst ekki. "Umburðarlyndisfasisminn" í íslensku samfélagi ku vera sá að einhverjir spyrja sig hvort trúarbrögð eða trúleysi eigi að vera persónulegt val hvers og eins ("valfrelsi, trúfrelsi") eða opinber forræðishyggjustefna af hálfu yfirvalda.

Þessir sem setja spurningu við opinbera forræðishyggju yfirvalda í trúmálum fá sem sagt nýyrðið "umburðarlyndisfasismi" í jólagjöf.

Ágætur maður rifjaði í vikunni upp söguna af því þegar Jesú var misboðið og velti við borðum víxlaranna í helgidómnum.

Þessu var líkt við það að kennsluborðum kristninnar væri nú velt við af ofsa og þau gerð brottræk "úr helgidómi íslenskra menntastofnana". 

Helgidómi íslenskra menntastofnana?!

Nú er ég alin upp í kristni og drakk í mig sögurnar af Jesú.

Sérfræðingar þjóðkirkjunnar í Guði kunna að vilja deila við mig en ég verð að segja alveg eins og er að ef sá Jesú sem ég þekki kæmi í heimsókn til okkar í dag þá mundi hann hafa áhyggjur af flestu öðru en kennsluborðum í skólum.

Ef hann væri sjálfum sér líkur mundi hann ef til vill byrja á að velta við borðum stórkapítalismans, neysluhyggjunnar, græðginnar og kaupæðisins.

Hví hræsnið þið svo bræður og systur?!" gæti hann hugsanlega sagt. "Kallið þið þetta mína hátíð, þessi jól? Hví bíða þá svo mörg ykkar í röðum misréttisins og hví hlaupa þá svo mörg ykkar í græðginni, tómlætinu?"

Svo mundi hann kannski skreppa í hinn nútímalega helgidóm Kauphallarinnar og velta við borðum víxlaranna og heilsa upp á fólkið sem bíður í röðum hjá Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefnd.

Ég segi svona.

Jesú var ekki mikið fyrir stofnanir, hvað þá bákn, svo hann mundi ekki einu sinni endilega byrja heimsókn sína á því að banka upp á hjá þjóðkirkjunni - með fullri virðingu. Jesú var fyrir andann og kærleikann, hann var málsvari fátæku ekkjunnar.

Hvað hitt varðar, orðskrípið "umbyrðarlyndisfasisma", væri kannski ráð að gleyma því heldur ekki, bræður og systur mannsandans, að vinur okkar Jesú var gyðingur.


Skipta 2 milljarðar máli? Vörn gegn hverju?

Já ég er á móti.

Ég er á móti því að Ísland verji 2 milljörðum í hernaðarbrölt og misskildar "varnir".

"Varnarmál" eru alveg glænýtt fyrirbæri í íslenskum fjárlögum og þangað fara gríðarlegir fjármunir.

Hvernig væri t.d. að slá af rúmlega 500 milljóna krónur til varnarmála í fjárlögum sem nú eru rædd á Alþingi og setja í bætta heilsugæslu - heilsugæslu sem þarf bráðnauðsynlega á uppbyggingu að halda?

Hvernig væri jafnvel að bæta um betur og slá af rúmlega 400 milljóna króna framlag til Ratsjárstofnunar (sem m.a. verði notuð í hernaðarlegum tilgangi) og gera eitthvað uppbyggilegra fyrir innviði íslensks samfélags?

Ég er fylgjandi því. Ég vil annars konar fjárlög, ég vil að skattpeningunum mínum sé eytt í allt annað en hernaðarbrölt (eða "varnarmál" eins og George Bush og félagar kalla það til að fegra málstaðinn). Við Íslendingar eigum að losa okkur undan slíkum málflutningi en ekki taka upp ósiði annarra, sem meðal annars felast í æ meira fjármagni til hernaðarbrölts, leyniþjónustu, tæknibúnaðar... "varnarmála".

Verum svolítið öðruvísi - verjumst því sem við raunverulega þurfum að verjast, því sem raunverulega er ógn í okkar samfélagi, í daglegu lífi venjulegs fólks. Þar er af nógu að taka.


Jólasveinn með viti vitjar

 

Vonandi gerir nú enginn harða orrahríð að Stekkjastaur þótt hún eigi sér þessa ósk.


Smalahundur bjargar mannslífi

Sá þennan fallega hund á netinu.. ímynda mér að hann sé í líkingu við Kát, stoltur Strandahundur með íslenska fánann við hún!

"Kátur var hirðfíflið í Stóru-Ávík. Hann fæddist í góðu skapi. Hann var í góðu skapi þegar hrafnarnir höfðu strítt honum heilan dag. Hann var í góðu skapi þegar hann var skammaður. Kátur var oft skammaður, því hann hafði mjög fjarstæðukenndar hugmyndir um smalamennsku. Kátur hélt að hann ætti að elta allar kindur sem hann sá, og reka þær út í buskann. Ég lokaði Kát inni áður en ég rak út úr túninu á morgnana...

...Það var Kátur sem kenndi mér, að maður á aldrei að meta neinn út frá því sem hann er ekki. Vissulega var Kátur versti smalahundur í sögu Árnes-hrepps, og strangt tekið hafði hann þess vegna ekkert notagildi. En hann var vinur, leikfélagi og sálusorgari...

...Hann var einn af sendiherrum gleðinnar á jörðinni, og þessvegna stóð hann nær guðdóminum en flest fullorðið fólk."

Þetta er byrjunin á kaflanum þar sem við fáum að lesa hvernig vonlaus lítill smalahundur bjargar mannslífi - Kátur bjargar Hrafni. Við lesum um Kát í einum af mörgum snilldarköflum í bókinn Þar sem vegurinn endar... bók Hrafns Jökulssonar sem Vigdís Grímsdóttir kallar "yndislestur í orðsins fyllstu merkingu".

Þegar ég fæ mér hvolp er ég að hugsa um að reyna að finna einhvern í líkingu við Kát.


Enn af bloggandi hundum

 


Að gelta eða blogga

Mig langar í hund, einhvern æðisgenginn skemmtilegan hvolp. En ég ætla ekki að láta það eftir mér. Ekki að svo stöddu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband