Í felum bakvið hótanir

Nú er það sem sagt komið á hreint: álverið í Straumsvík fer ef það fær ekki að stækka. Segir upplýsingafulltrúinn.

Hótar upplýsingafulltrúinn.

Ég missti af einhverju. Einhverju stóru. Hvenær fór það að teljast eðlilegt á Íslandi að fyrirtæki stæði í margra (margra, margra!) miljóna króna kosningabaráttu í máli er varðar almannahag og framtíð Íslands - barna okkar og barnabarna? Hvenær urðu upplýsingafulltrúar fyrirtækja úti í bæ málsvarar fólksins í landinu, talandi fyrir hag og framtíð heils bæjarfélags?

Hvar eru stjórnmálamennirnir sem bera ábyrgð á þessu? Hvar eru þeir sem eiga að bera almannahag fyrir brjósti og gefa fólki kost á að kynna sér allar hliðar málsins - á eins upplýsandi og gagnsæjan hátt og kostur er? Hvar eru þeir sem eiga að tryggja að fólkið sjálft fái að velja? Og hvaða fólk á að velja? Fær fólkið sem missir land sitt og náttúruperlur í Gnúpverjahreppi líka að velja um sína framtíð?

Og hvar er Samfylkingin í Hafnarfirði? Í felum á bak við upplýsingafulltrúa?

Það er með ólíkindum hvað Samfylkingin fær að komast upp með í þessum efnum. Samfylkingin hefur leitt þetta mál um langa hríð en felur sig svo á bak við aðra til að firra sig ábyrgð. Ég vil þá frekar biðja um úlfa sem segja rétt til nafns heldur en úlfa í sauðagærum. Veifandi "Fagra Íslandi" í annarri hendi og samningum við álrisa um allt land í hinni. Má ég þá heldur biðja um virkjanasinna sem ganga hreint til verks - ekki virkjanasinna og álvæðingarkappa sem þykjast vera eitthvað annað en þeir eru. Það spillir allri almennilegri umræðu og glepur sýn í málum þar sem stærstu spurningar framtíðarinnar liggja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Rós Antoníusdóttir

Er ekki í lagi? Hvenær fór að teljast eðlilegt á Íslandi að almenningur væri látin kjósa um framtíðarmöguleika einkafyrirtækis???

Inga Rós Antoníusdóttir, 5.1.2007 kl. 21:01

2 Smámynd: Ólafur fannberg

segi það sama.Hóta svo lokun ef það fær svo ekki sitt

Ólafur fannberg, 5.1.2007 kl. 23:03

3 identicon

Eitt sem að mér finnst gleimast í þessari umræðu er það að Álverið í straumsvík hefur borið Hafnfirskt bæjarfélag á herðum sér í tugi ára og verið þarna í tugi ára. Álverið er ekki að raska byggðarstefnu í Hafnarfirði, hafnarfjörður er einfaldlega að vaxa í átt að Álverinu. Ég skil þá mætavel að hypja sig ef að þeir fá ekki að stækka. Það verða alla veganna 400 manns sem að hafa góð störf þarna sem verða verulega "pissed off" ef að þeir lenda í því að störfin þeirra verða "kosinn" í burtu.

Árni Jóns 

Árni (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 10:48

4 identicon

Álverið má bara hypja sig til Afríku.

Árni (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 16:10

5 identicon

Ég er nú alveg á því að fóklið sjálft eigi að kjósa!  ÁróðurÁlversins er þeim ekki til framdráttar, a.m.k. ekki Bó, þeir hefðu frekar átt að senda Mozart eða Bach...

Anna Benkovic (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 18:05

6 Smámynd: Inga Rós Antoníusdóttir

Ég vona að þér sé ekki alvara, Anna Benkovic. En ef svo er, þá held ég að þú fáir verðlaun fyrir ómálefnalegasta kommentið sem ég hef enn lesið í tengslum við þetta málefni.

Inga Rós Antoníusdóttir, 7.1.2007 kl. 00:26

7 identicon

Hótar? Er ekki eðlilegt að Álverið finni sér annan stað t.d. Helguvík ef Hafnfirðingar vilja þá ekki? 

Kjartan (IP-tala skráð) 7.1.2007 kl. 00:40

8 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Hvað er hótun???  Er það þegar e-h aðili segir að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir þessu eða hinu ef ekki verða breytingar? 

Eða eru þessir aðilar að reyna að reka sitt fyrirtæki eins vel og að þeim er unnt, og því reyna þeir það sem þeir geta til að fá stækkað til að búa til hagkvæmari rekstrareiningu???

Ég veit ekki, en mér finnst að það sé nú ekki rétt að fella skeggjudóma í svona málum, það er alþekkt að fyrirtæki færi sig um set ef ekki er hægt að vaxa og þróast.

Við getum til dæmis nefnt Flögu sem dæmi, þeir fóru með megnið af sinni starfsemi úr landi af því að það var hagkvæmara og betra en að vera á skerinu, ekki hefur neinn talað um það enþá eða hvað??

................. 

Eiður Ragnarsson, 7.1.2007 kl. 03:00

9 identicon

Þetta er ekki bara spurning um framtíð einkafyrirtækis, þetta er líka spurning um framtíð einstaklinga og fjölskyldna sem hafa lagt aleigu sína í þak yfir höfuðið í nágrenni við álverið - bæjaryfirvöld hafa skipulagt íbúðabyggð í göngufæri við álverið - er ekki eðlilegt að það fólk fái að tjá hug sinn og hvað það fær í bakgarðinn sinn.

Varðandi að álverið hafi borið upp Hafnarfjörð í áratugi þá er það vissulega rétt að tilkoma þess var mikil vítamínssprauta í bæjarfélagið á sínum tíma en það eru orðin töluvert mörg ár síðan að verksmiðjan var ekki lengur "bread and butter" fyrir Hafnarfjörð.

Það fer vonandi að skýrast hjá Samfylkingunni hvenær og um hvað verður kosið - síðan er stóra spurninginn hvort tekið verði mark á vilja íbúa sem vonandi kjósa gegn álveri.

Magnús (IP-tala skráð) 7.1.2007 kl. 11:05

10 Smámynd: Rauða Ljónið

 Það var  ekki Alcan sem fór fram á kosningnar um stækkun. Sú ákvörðun var tekin á öðrum stöðum til að sætta vissa flokkadrætti í bænum Vinstri Græna sem á sínum tíma gengu inn í  Samfylkinguna þar liggur sú ákvörðum að baki,, þinn flokkur “.Vinstri Grænir hafa á vissan hátt knúið á kosningabaráttu  um stækkun ábyrggiði á þeim kosnaði  liggjur hjá þeim að hluta.  Málin hafa nú þróast þannig að starfsmenn Alcan liggja nú undir miklum óhróðri og einelti í skrifum ýmsu tagi og svo koma líka ljósvakamiðlanir og  líður mörgum starfsmanninum illa út af þeim óhróðri sem þeir verða fyrir og eiga þar einga sök að máli, virðist það einu gilda hvað sagt er í þessu máli og skrifum en heldur ber  að hafa það en það sem sannara reynist. Alþjóð veit að Vinstri Grænir eru á móti einkafyrirtækjum og allri atvinnu upp byggingu í þeim flokki.

Kv Svig.

Rauða Ljónið, 7.1.2007 kl. 13:06

11 Smámynd: Guðfríður Lilja

Ágætu lesendur og athugasemdaskrifarar! Takk fyrir allar þessar ólíku athugasemdir. Auðvitað er það alltaf þannig að sitt sýnist hverjum og nær undantekningarlaust er það þannig að allir hafi eitthvað til síns máls. Ég trúi því einlæglega í þessu máli sem öðrum. Þetta er ekki svart eða hvítt og margt um erfiðar spurningar og áskoranir. Það ríður þess vegna á að allir kynni sér málin sem allra best og taki afstöðu áður en það er um seinan – og að við séum öll um leið tilbúin til að endurskoða þá afstöðu ef eitthvað kemur upp í hendurnar á okkur sem veltir okkur yfir á aðra niðurstöðu. Ég hef um nokkra hríð verið áhugamanneskja um hegðan alþjóðlegra álrisa víðs vegar í heiminum(sem og reyndar annarra risa-viðskiptablokka, s.s. olíufyrirtækja og fleiri – mun skrifa um olíurisana í Írak við tækifæri!). Alcan kemur margoft við sögu í þessu samhengi víða um heim og ég hef fylgst nokkuð grannt með þessum málum í alþjóðlegu samhengi. Ég hef eftir bestu getu reynt að kynna mér málin frá sem flestum sjónarmiðum, bæði hér heima og erlendis, og auðvitað hefur allt einhverja kosti og galla – þannig er það nánast alltaf. Mín persónulega niðurstaða er hins vegar sú að hin mikla álvæðing Íslands sem við blasir sé okkur ekki til heilla - langt í frá. Ég get ekki svarað öllum athugasemdum hér en mun áður en langt um líður skrifa lengri pistil um málið og reyna að velta upp ýmsum þeim spurningum sem fram hafa komið (það versta er að í öllum hraðanum í dag nennir enginn að lesa langar greinar og ítarlegar – og það eitt í sjálfu sér hindrar oft málefnalega umræðu og innihaldsrík skoðanaskipti!). Mig langar að taka skýrt fram að ég lít augljóslega svo á að þeir sem eru fylgjandi stækkun hafi góðar og gildar ástæður fyrir þeim sjónarmiðum. Það á ekki að gera lítið úr því og ég vil ekki gera það. Það að fólk missi vinnuna sína ef álverið lokar í framtíðinni er grafalvarlegt mál. Álverið mun auðvitað loka á einhverjum tímapunkti í framtíðinni, með eða án stækkunar, en það er spurning um hversu langt er í það. Það er hins vegar einlæg sannfæring mín út frá mismunandi forsendum að framtíð Hafnarfjarðar til lengri tíma litið sé betur borgið án stækkunar álvers. Það er alrangt eins og einhverjir virðast segja að ég sem vinstrigræn sé sjálfkrafa á móti einkafyrirtækjum eða framtakssömum einstaklingum – síður en svo. Ég trúi því að einn lykillinn að farsælli framtíð Íslands liggi einmitt í framtakssemi og hugviti einstaklinga og hópa og fjölbreyttri frumkvöðlastarfsemi þeirra. Í því sambandi finnst mér til dæmis mikilvægt að lítil og meðalstór fyrirtæki búi ekki við erfiðari aðstæður heldur en risavaxnar alþjóðasamsteypur á Íslandi (sem vel að merkja taka oft stóran hluta gróðans úr landi). Ég er hins vegar hjartanlega ósammála því sjónarmiði sem fram hefur komið að spurning um stækkun sé bara einkamál einkafyrirtækis sem við Íslendingar eigum ekki að fá að hafa áhrif á. Þetta mál snertir grundvallarspurningar um hvernig Hafnfirðingar vilja sjá bæinn sinn þróast, og stækkun nú kemur upp í samhengi sem er gjörólíkt frá því sem var þegar álverið kom fyrst til. En þetta snertir heldur ekki bara Hafnfirðinga, þetta snertir líka grundvallarspurningar fyrir fólk sem býr í grennd við Þjórsá og glatar náttúruperlum á Suðurlandi. Mótmælin við Urriðafoss nú um helgina sýna til dæmis að jafnvel fólk sem er opið fyrir því að virkja á Suðurlandi finnst hins vegar óþolandi að það eigi að virkja þeirra land en láta fjármagnið renna í vasa okkar á stórhöfuðborgarsvæðinu. Hafa þau ekki eitthvað til síns máls líka? (Mér finnst reyndar mikil mistök yfirhöfuð að virkja þennan stórkostlega foss – en það er annað og lengra mál). Í stærra samhengi er þetta einmitt ekki einkamál heldur mál sem skiptir alla Íslendinga máli þar eð þetta er spurning um hvernig við sjáum Ísland fyrir okkur þróast inn í framtíðina. Það fer þess vegna í taugarnar á mér þegar stjórnmálamenn láta eins og þetta sé ekki pólitískt mál. Því hvað þýðir “pólitískt mál”? Það er mál sem við fólkið í landinu eigum að hafa eitthvað um að segja – og við hljótum að vilja búa í samfélagi þar sem við fólkið sjálft höfum sem mest um sem flest að segja um það hvernig umhverfi okkar og framtíð þróast, að við séum virk í að móta stefnuna fram á við og hugsa framhaldið áfram til komandi kynslóða, svo að þau sem á eftir okkur koma hafi sem flest af spennandi og fjölbreyttum tækifærum – meira í dag en í gær og enn meiri á morgun. Sýndarlýðræði er ekki lýðræði; og lýðræði í fámennu samfélagi sem okkar þar sem við ráðum okkur sjálf getur og á að hafa raunverulega merkingu og innihald. Þar skiptir miklu að framtíð þeirra sem á eftir koma sé ekki aðþrengd eða takmörkuð af mistökum og skammtímahagsmunum okkar sem nú erum uppi. Í þeim efnum fara hagsmunir einstakra álrisa ekki endilega saman við hagsmuni einstakra bæjarfélaga, sveita, almennings eða framtíðarinnar í víðu samhengi. Ég vona satt best að segja að sem mest verði af fundum og skoðanaskiptum um þessi mál öll á næstunni. “Blogg” sem slíkt er stutt innskot um hitt og þetta og getur aldrei nema verið örlítill þráður í að vekja spurningar eða athugasemdir. Alvöru umræða, ítarleg og málefnaleg frá ólíkum sjónarhornum, þarf mun stærri og öflugri vettvang þar sem margir fleiri koma að. 

Í lok athugasemdanna hér að ofan er spurt hvar fram komi að álverinu verði lokað ef það fái ekki að stækka – það kom fram í forsíðufrétt í Fréttablaðinu á föstudag sl. Ef ég man rétt var sjálf fyrirsögnin "Álverinu í Straumsvík lokað ef ekki verður af stækkun."

Læt þetta nægja í bili!

Kveðja,

 Lilja

Guðfríður Lilja, 7.1.2007 kl. 22:33

12 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Er þá rétt að skilja afstöðu þína sem svo, Guðfríður, að þú sért mótfallinn þeirri hugmynd sem VG barðist hvað harðast fyrir á síðasta kjörtímabili, þ.e. að láta Kárahnjúka í þjóðaratkvæði?

Væri þar um að ræða ,,Sýndarlýðræði" í þeirri merkingu að möguleikar komandi kynslóða yrðu skertir ef að virkjunin yrði studd?

Þessi spurning er ekki ætlað að snúa út úr, heldur er ég að leita eftir afstöðunni.

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 9.1.2007 kl. 15:19

13 Smámynd: Guðfríður Lilja

Sæll Þórir Hrafn.

Það virðist gæta einhvers misskilnings um að ég sé mótfallin því að kosið sé um stækkun álversins. Því fer fjarri. Það er einmitt fólkið í landinu sem á sjálft að velja sína framtíð. Það sem ég var að gagnrýna er skerandi þögn og afstöðuleysi mikilvægra stjórnmálaafla í opinberri umræðu um þetta mál.

Verk Samfylkingarnnar í þessum efnum segja auðvitað meira en nokkur orð og tala skýrt - flokkurinn hefur hingað til verið stóriðju- og virkjanaflokkur, ekki bara í Hafnarfirði heldur víða um landið. Nú virðist manni hins vegar sem það eigi bara að þegja og láta líta svo út eins og stjórnmálaflokkar séu bara hlutlausir aðilar þegar kemur að hápólitískum málefnum og stórum ákvörðunum um framtíðina. Afstaða mín byggist ekki á einhverri sérstakri óvild í garð Samfylkingar heldur þeirri sannfæringu að það grafi undan lýðræðislegri og opinni umræðu í landinu þegar stjórnmálaflokkar og leiðtogar taka ekki skýra afstöðu í stórum málum (eða segja ekki frá henni). Það er þögnin sem er ábyrgðarlaus, en að lokum er það að sjálfsögðu fólkið sjálft í landinu sem á að velja. Fólk þarf hins vegar að fá að vita sem best um hvað það er að velja, og þar er skýr orðræða og hreinskiptin afstaða lykilatriði. Það liggur í augum uppi að talsmenn Alcan tala fyrir hagsmunum fyrirtækisins: það kemur fyrirtækinu best að álverið stækki. En kemur það Hafnarfirði best í víðu samhengi? Af hverju þegja þeir sem hafa það að inntaki starfslýsingar sinnar að bera almannahag fyrir brjósti í hvívetna? Hvað finnst þeim koma Hafnarfirði best til framtíðar í þessu máli? Við vitum svo sem hvert svarið er, en það á að segja það beint út. Það ber öllum skylda til að tala hreint út í þessum efnum. 

Hvað varðar spurningu þína um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun var ég stuðningsmanneskja þess. Ef fólkið í landinu vill virkjanir og álver út um allt land (sem öll munu krefjast þess að stækka á einum eða öðrum tímapunkti), þá er það einfaldlega niðurstaðan. En fyrst á að fara fram mikil, djúp og víðfeðm umræða á öllum hliðum málsins. Leiðtogar þeirrar umræðu eiga ekki bara að vera forsvarsmenn álfyrirtækja, heldur almennir borgarar sjálfir og ekki síst það fólk sem boðið hefur sig fram til starfa til að þjóna almannahag. Þar koma stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar óneitanlega fyrst upp í hugann.

Kveðja,

Lilja

Guðfríður Lilja, 9.1.2007 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband