Karakter ærunnar

Hvort væru Íslendingar líklegri til að selja frá sér handritin nú eða fyrir hálfri öld? Eru dýrgripir menningar og náttúru betur varðveittir hjá okkur í samtímanum en þeir voru árið 1955? Þjóðin var fátækari þá. Freistingin hefði átt að vera meiri. En samt – af vanefnum sínum voru Íslendingar af kappsemi og metnaði að byggja upp kröftugt menningarsamfélag. Í fátæktinni var prjónað öryggisnet sem miklu ríkari samtími þarf nú á að halda, samfélag samhjálpar og velferðar. 

Sjaldan ef nokkru sinni í mannkynssögunni hefur græðgin verið hafin til jafn mikils vegs og virðingar og á undanförnum árum. Græðgin hefur verið lofsungin, sögð aflvaki framfara, því gráðugri sem manneskjan verði þeim mun meiri sköpunarkraftur, meiri afköst, meira framlag. Utan um þetta hefur verið smíðuð pólitík sem hefur farið eins og eldur í sinu enda græðgin bráðsmitandi. Sú pólitík hefur rænt fjölda fólks aleigunni og fjölda þjóða innviðunum, við erum langt í frá fyrstu fórnarlömbin.

 Nú segja sumir að við höfum við lært, að héðan í frá munum við vita. En bíðum hæg. Græðgin fer ekki langt þótt hún skipti um hendur um stund. Hún er jafn öflug í dag og í gær, hún er afl sem ekki deyr, jafnvel þótt allt virðist hrunið. Hún sér tækifæri í þessari stöðu einsog öllum stöðum. Hrægammakapítalisminn étur börnin sín og nærist enn. Sameiginlegt áfall ríður yfir, við erum hrygg og reið. Ýmsir hafa misst vinnuna, réttindin, sparnaðinn, fótana, jafnvel allt í senn. Lánin vaxa óbærilega yfir höfuð. Eignir eru frystar. Í bland við annað hefur æra landsins beðið alvarlegan hnekki. Enginn treystir lengur Íslendingum, við erum sjóræningjar norðursins, ekki hæf til viðskipta. Fullkomið klúður stjórnvalda á örlagastundum setur mann enn hljóðan. 
Nú þurfum við að ná áttum og byggja karakter samfélagsins upp á nýtt. Og við þurfum að vara okkur á blekkingunum. Nú gegna fjölmiðlar veigameira hlutverki en nokkru sinni, nú verða þeir að sýna svo ekki verður um villst að þeir eru ekki þjónar valdsins heldur sannleikans. Glundroði og hrun er stundum einmitt tækið til að festa í sessi ólýðræðislega hagsmuni. Hvað ætli bláa höndin sé nú að rissa upp á nýtt úr öskunni? Utandyra má heyra frýsið í ótemjunni sem vill geta keypt og verslað með sjúklinga, með aldraða, með ungviðið, með árnar allar, jafnvel afhenda einkavinum. Hún vill allt inn í bókhald græðginnar, líka þegar markaðsöflin hafa hrunið.  

Fátæk þjóð varðveitti menninguna og byggði upp velferð, komst yfir hörmuleg áföll. Ef okkur lánast að taka frekar skellinn á okkur hér og nú, vera snauð um hríð og nægjusöm en einbeitt í að skýla komandi kynslóðum sem mest, þá höfum við í það minnsta reynt að vera ærlegar manneskjur. Þá mun æra Íslands einnig rísa á ný.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Góður pistill og þörf lesning, sem ég vona að sem flestir sjái.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.10.2008 kl. 18:45

2 Smámynd: arnar valgeirsson

þú ert flink í að raða orðunum alveg hárrétt, lilja, og þetta með að "Hrægammakapítalisminn étur börnin sín og nærist enn" passar sko upp á hár þegar við tökum stóra lánið þar sem frjálshyggjuliðið tekur yfir fjárræði okkar. og sjálfræði i leiðinni.

hér verður hver spræna virkjuð og eins og þú nefnir er maður skíthræddur um að hver einasta stofnun, og rúmlega það, verði einkavædd.

en við erum alltaf á móti öllu og aldrei verða neinar framfarir með vinstra fólk við stjórn, segir frjálshyggjuliðið sem fór með landið alla leið yfir brúnina. og bjargið var svo miklu hærra en allir héldu.

en nú er teknópartíið búið, fráhvörfin djöfulleg og kannski fara einhverjir að hlusta.

arnar valgeirsson, 13.10.2008 kl. 22:15

3 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Það er gleðilegt að geta lesið greinar skrifaðar af fullu viti eftir heilvita manneskjur á þessum fyrstu og bestu tímum, og í besta heimi allra mögulegra heima, einsog segir í Birtingi eftir Voltaire.  Bjartsýnin og Svartsýnin eru systur og stundum hleypur bjartsýnin svolítið framúr sjálfri sér og svartsýnin hleypur svolítið inní sjálfa sig, en einhversstaðar þarna mitt á milli býr heilbrigð skynsemi okkar mannana.  Þú yrðir ágætis kennari uppí háskóla, ef sett væri þar á stofn gráða í "Heilbrigðri skynsemi" og ef af yrði gæti þetta eflaust orðið aðsóknarmesta fag innan háskólans á næstu árum.  Mig langar ekki að minnast á "GRÆÐGI", mér finnst það ljótt orð.....úps...

Máni Ragnar Svansson, 14.10.2008 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband